Bretar kjósa að yfirgefa Evrópusambandið

By on 24, júní 2016
Meirihluti Breta hefur greitt atkvæði með því að ganga úr ESB.

Meirihluti Breta hefur greitt atkvæði með því að ganga úr ESB.

Breska þjóðin hefur ákveðið að yfirgefa Evrópusambandið eftir 43 ára veru í sambandinu. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í Bretlandi í gær.

Rúmlega þrjátíu milljónir Breta tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og var kjörsókn um 72%. Um er að ræða mestu kosningaþátttöku í landinu frá árinu 1992. Rúmlega sextán milljónir greiddu atkvæði með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu og rúmlega 17 milljónir greiddu atkvæði með því að yfirgefa sambandið, eða 51,9% þeirra sem kusu.

Úrslitin eru ósigur fyrir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem og breska Verkamannaflokkinn, sem studdu áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu. Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins (UKIP) er einn þeirra sem fagnað hefur sigri. Hann hefur lengi barist fyrir útgöngu Breta úr sambandinu.Haft er eftir honum að sigurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni væri „sigur hins venjulega manns“ og að 23. júní verði héðan í frá þjóðhátíðardagur Breta.

Ljóst er að breska þjóðin er klofin í málinu. Afstaðan til aðildar að Evrópusambandinu er mismunandi milli landsvæða. Stuðningurinn við áframhaldandi aðild var til að mynda mestur í London, á Norður Írlandi á meðan íbúar Wales vildu yfirgefa sambandið.

Óljóst er hvernig útgöngu Breta verði háttað og hversu langan tíma hún muni taka enda hefur aldrei reynt á útgönguferlið raunverulega. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt Breta til að hefja vinnu við útgönguna sem allra fyrst. Stóra spurningin er síðan hvernig samskiptum Breta við Evrópusambandið verður háttað í framtíðinni.