David Cameron hættir sem forsætisráðherra Bretlands

By on 24, júní 2016
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.  © express.co.uk

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
© express.co.uk

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun láta af embætti forsætisráðherra fyrir næsta flokksþing Íhaldsmanna sem fram fer í október. Ákvörðun Camerons kemur í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í gær þar sem meirihluti Breta samþykkti úrsögn landsins úr Evrópusambandinu.

Cameron barðist fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB og því kemur ákvörðun hans ekki á óvart. Í yfirlýsingu frá Cameron segir að í ljósi niðurstöðunnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni sé hann þeirrar skoðunar að nýr forsætisráðherra eigi að leiða viðræður við ESB um næstu skref.

Margir nefna Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóra Lundúna, sem arftaka Camerons en hann fór fyrir Íhaldsmönnum sem vildu að Bretland gengi úr Evrópusambandinu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Breta að Evrópusambandinu fór fram í gær. Rúmlega þrjátíu milljónir Breta tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og var kjörsókn um 72%. Um er að ræða mestu kosningaþátttöku í landinu frá árinu 1992. 52% greiddu atkvæði með úrsögn úr sambandinu og 48% greiddu atkvæði með áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu.

Sjá einnig: 

Bretar kjósa að yfirgefa Evrópusambandið.