Öfa-hægrimenn stofna þingflokk á Evrópuþinginu!

By on 16, júní 2015
Marine Le Pen, Geert Wilders, Marcel de Graaff og fleiri þingmenn EFN. © The Telegraph

Marine Le Pen, Geert Wilders, Marcel de Graaff og fleiri þingmenn EFN.
© The Telegraph

Marine Le Pen, leiðtogi franska þjóðernisflokksins, Front National, og Geert Wilders, leiðtogi hollenska Frelsisflokksins, kynntu í dag nýjan þingflokk á Evrópuþinginu.

Þingflokkurinn, sem ber nafnið „Evrópa þjóða og frelsis“ (e. Europe of Nations and Freedom) verður leiddur af Le Pen og Marcel De Graaff, Evrópuþingmanni fyrir hollenska Frelsisflokkinn, en Wilders á ekki sæti á Evrópuþinginu.

„Í dag er D-dagur, í dag er upphafið að frelsun okkar. Við erum rödd evrópskrar andspyrnu,“ sagði Wilders við tilefnið.

Eftir kosningarnar til Evrópuþingsins sem fram fóru í maí á síðasta ári reyndu Le Pen og Wilders að mynda þingflokk sem átti að samanstanda af kjörnum fulltrúum öfga-hægriflokka í Evrópu en þeim mistókst að uppfylla reglur Evrópuþingsins sem kveða á um að til þess að geta myndað þingflokk þarf hann að vera skipaður a.m.k. 25 Evrópuþingmönnum frá a.m.k. sjö aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Rúmu ári síðar hefur Le Pen og Wilders nú tekist að uppfylla reglur Evrópuþingsins um myndun þingflokka sem mun m.a. skila sér í mun meira fjármagni og auknum áhrifum á þinginu. Le Pen þakkaði sérstaklega Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins, sem að hennar mati hefur komið fram við óháðu þingmennina eins og annars flokks, sem gaf þeim aukinn styrk til þess að mynda þingflokkinn.

Auk þingmanna Front National og hollenska Frelsisflokksins eiga þingmenn belgíska öfga-hægriflokksins Vlaams Belang, Lega Nord frá Ítalíu og Frelsisflokksins, frá Austurríki, aðild að þingflokknum.

Þá eiga tveir þingmenn pólska öfga-flokksins KNP, sem hefur m.a. verið sakaður um gyðingahatur og hatur á konum, aðild að þingflokknum, en áður var Wilders ekki tilbúinn til þess að vinna með þeim þar sem þeir þóttu of öfga-fullir, en hann virðist hafa skipt um skoðun eftir að þingmennirnir tveir skáru á tengsl sín við Janusz Korwin-Mikke, stofnanda flokksins.

Þá gekk breska þingkonan Janice Atkinson til liðs við þingflokkinn en hún var áður meðlimur í Breska sjálfstæðisflokknum, en var rekin úr hönum á dögunum og þar af leiðandi úr þingflokki Nigel Farage, leiðtoga Breska sjálfsætðisflokksins, á Evrópuþinginu.

Aðrir sem áður höfðu lýst yfir áhuga á því að ganga til liðs við slíkan þingflokk voru grísku nýnasistarnir í Gullinni dögun og fulltrúar ungverska öfga-hægriflokksins Jobbik en Le Pen vildi ekki starfa með þeim, þar sem hún sagði þá of öfgafulla. Þeir sitja áfram sem óháðir þingmenn.

Þingflokkurinn samanstendur af 36 þingmönnum og er sá minnsti á Evrópuþinginu. Það mun samt sem áður skila sér í mun meira fjármagni, fleiri starfsmönnum og auknum áhrifum á þinginu en Le Pen og De Graaff munu t.d. sitja formannafundi þingsins sem m.a. ákveður dagskrá þingsins. Þá munu þau geta haft meiri áhrif á lagasetningarferlið og ákvarðanatöku á þinginu auk þess sem það verður auðveldara fyrir þingflokkinn að fá sæti í nefndum þingsins.

Sjá einnig:

Nýr þingflokkuir öfga-hægrimanna tekur á sig mynd.

Sex óhugnanlegustu flokkarnir á Evrópuþinginu.

Uppgangur öfga-hægriafla í Evrópu.

Tengls á milli kosningaþátttöku og uppgangi öfga-afla.

Geert Wilders ákærður fyrir kynþáttahatur.

Le Pen mistekst að mynda þingflokk ögfamanna.

Kosningaþátttaka í Evrópuþingskosningunum.