Þjóðernissinnarnir Farage, Le Pen og Geert Wilders fagna útgöngu Breta úr ESB

By on 24, júní 2016
Marine Le Pen og Geert Wilders skála fyrir nýjum þingflokki á Evrópuþinginu.  © Twitter/Geert WIlders

Marine Le Pen og Geert Wilders skála fyrir nýjum þingflokki öfga-hægrimanna á Evrópuþinginu.
© Twitter/Geert WIlders

Þjóðaratkvæðagreiðsla Breta um aðild að Evrópusambandinu sem fram fór í gær er mikill ósigur fyrir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, en hann barðist fyrir áframhaldandi veru Breta í sambandinu. Cameron hefur sagt að hann muni láta af embætti forsætisráðherra áður en flokksþing Íhaldsmanna fer fram í október n.k.

Úrslitin eru einnig sögð vera ósigur fyrir breska Verkamannaflokkinn og Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins, sem einnig studdi og barðist fyrir áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu.

Athygli vekur að Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins (UKIP) er einn þeirra sem fagnað hefur sigri í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Farage hefur í tvo áratugi barist fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og var hann áberandi í kosningabaráttunni. Haft er eftir Farage að sigurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni sé „sigur hins venjulega manns“ og að 23. júní verði héðan í frá þjóðhátíðardagur Breta, enda hafi þeir nú endurheim sjálfstæði sitt.

Um sögulegan atburð er að ræða og hafa margir fagnað sigri og lýst yfir ósigri, ekki bara í Bretlandi.

Marine Le Pen, leiðtogi öfga-hægriflokksins Front National, eða frönsku Þjóðfylkingarinnar, er á meðal þeirra sem fagna því að Bretar hafi sagt skilið við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hún að frelsið hafi sigrað í atkvæðagreiðslunni í gær.

Le Pen, sem er einn vinsælasti stjórnmálamaður Frakklands og frambjóðandi til forseta í kosningunum sem fram fara í Frakklandi á næsta ári hefur kallað eftir sams konar kosningum þar í landi. Le Pen, sem situr á Evrópuþinginu, er einn af stofnendum þingflokks öfga-hægrimanna í þinginu, en þar koma saman evrópskir stjórnmálaflokkar sem m.a. sameiginlegt andstöðu við Evrópusambandið og evruna, andúð á innflytjendum og fjölmenningu og stefnu sem einkennist af þjóðernishyggju og popúlisma.

Geert Wilders, leiðtogi hollenska Frelsisflokksins og skoðanabróðir Le Pen og Farage, hefur einnig lýst yfir ánægju með úrslit kosninganna í Bretlandi og kallar eftir sams konar kosningum í Hollandi. Hann segir Hollendinga vilja stjórna eigin landi, landamærum og innflytjendastefnu. Hann hefur nú lofað því að ef hann verður næsti forsætisráðherra Hollands muni hann boða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Hollands að Evrópusambandinu.

Wilders, sem er einn umdeildasti stjórnmálamaður Evrópu, stofnaði þingflokk öfga-hægrimanna á Evrópiþinginu í samvinnu við Le Pen. Hann situr þó ekki á Evrópuþinginu heldur því hollenska, en hann hefur verið formaður hollenska Frelsisflokksins allt frá stofnun hans árið 2006. Hann var á síðasta ári valinn stjórnmálamaður ársins í Hollandi.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Breta að Evrópusambandinu fór fram í gær. Rúmlega þrjátíu milljónir Breta tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og var kjörsókn um 72%. Um er að ræða mestu kosningaþátttöku í landinu frá árinu 1992. 52% greiddu atkvæði með úrsögn úr sambandinu og 48% greiddu atkvæði með áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu.

Sjá einnig: 

David Cameron hættir sem forsætisráðherra.

Bretar kjósa að yfirgefa Evrópusambandið.

Öfga-hægrimenn stofna þingflokk.

Sex óhugnanlegustu flokkarnir á Evrópuþinginu.