Hátt í fjórar milljónir Breta vilja aðra atkvæðagreiðslu um ESB

By on 27, júní 2016
Meirihluti Breta hefur greitt atkvæði með því að ganga úr ESB.

Meirihluti Breta hefur greitt atkvæði með því að ganga úr ESB.

Meira en 3,7 milljónir Breta hafa skrifað undir áskorun þess efnis að þjóðaratkvæðagreiðslan um aðild Breta að Evrópusambandinu verði endurtekin.

Rúmlega þrjátíu milljónir Breta tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór þann 23. Júní s.l. og var kjörsókn um 72%. Um er að ræða mestu kosningaþátttöku í landinu frá árinu 1992. Rúmlega sextán milljónir greiddu atkvæði með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu og rúmlega 17 milljónir greiddu atkvæði með því að yfirgefa sambandið, eða 51,9% þeirra sem kusu.

Margir hafa lýst yfir óánægju vegna svikinna loforða þeirra sem börðust fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu á meðan aðrir notuðu atkvæðið sitt til þess að mótmæla, eins og þekkist í Bretlandi, þar sem þeir höfðu enga trú á því að Bretar myndu yfirgefa sambandið.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands hefur sagt að mjög litlar líkur séu á að atkvæðagreiðslan verði endurtekin. Samkvæmt breskum lögum ber þingi landsins þó að taka mál til umræðu berist því áskorun yfir hundrað þúsund kjósenda.

Óljóst er hvernig útgöngu Breta verði háttað og hversu langan tíma hún muni taka enda hefur aldrei reynt á útgönguferlið. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt Breta til að hefja vinnu við útgönguna sem allra fyrst.

Hér má fylgjast með undirskriftasöfnuninni.

Sjá einnig: 

Þjóðernissinnar fagna útgöngu úr ESB.

David Cameron hættir sem forsætisráðherra.

Bretar kjósa að yfirgefa Evrópusambandið.