Leiðtogar ESB ræða aðgerðir gegn hryðjuverkum

By on 9, janúar 2015
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB. © The Guardian

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB.
© The Guardian

Leiðtogaráð Evrópusambandsins kemur saman á sínum fyrsta fundi á nýju ári þann 12. febrúar n.k. Leiðtogaráðið er skipað leiðtogum aðildarríkja ESB.

Leiðtogarnir munu að þessu sinni ræða með hvaða leiðum sé hægt að berjast gegn og koma í veg fyrir árásir hryðjuverkamanna. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, greindi frá þessu á blaðamannafundi í Eistlandi í dag.

Ákvörðun Tusk kemur í kjölfarið á árás á höfuðstöðvar franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo í miðborg Parísar á miðvikudag, þar sem tólf manns létu lífið. Lögreglan í París reynir nú að handsama menn sem réðust inn í höfuðstöðvarnar og hófu þar skothríð.

Tusk sagði að hann hafi rætt við François Hollande, forseta Frakklands, og hafi í kjölfarið ákveðið að fundurinn skuli einblína á þetta brýna viðfangsefni.

Tusk sagði að Evrópusambandið ætti að leita leið til þess að styrkja öryggi borgara sinna. Ein leið væri að fylgjast nánar með ferðum einstaklinga sem teljast hættulegir. Evrópuþingið vinnur nú að lagasetningu um eftirlitskerfi sem auðveldar yfirvöldum að fylgjast með ferðum hættulegra einstaklinga. Tusk sagðist ætla óska eftir því við þingið að það myndi hraða vinnu sinni við lagasetninguna.