Vantrauststillaga á Jeremy Corbin samþykkt með miklum meirihluta

By on 28, júní 2016
Jeremy Corbyn er leiðtogi breska Verkamannaflokksins. © The Guardian.

Jeremy Corbyn er leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
© The Guardian.

Mikill meirihluti þingmanna breska Verkamannaflokksins greiddi í dag atkvæði með vantrauststillögu á Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins. Einungis fjörutíu þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni á meðan 172 greiddu atkvæði með tillögunni og lýstu með því vantrausti á Corbyn.

Segja má að pólitískt uppnám sé á Bretlandi eftir að meirihluti bresku þjóðarinnar greiddi atkvæði með því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið og breski Verkamannaflokkurinn er engin undantekning þar á. Fjöldi ráðherra í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins hafa sagt af sér síðustu daga og aðrir verið reknir fyrir að gagnrýna Corbyn.

Margir eru ósáttir við vinnubrögð Corbyns og segja hann hafa staðið sig illa í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Sumir ganga svo langt að kenna honum um niðurstöðuna.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á þinginu er ekki bindandi og hefur Corbyn sjálfur sagt að hann muni ekki segja af sér. Búast má við því að málið verði borið undir flokkinn.

Sjá einnig: 

Vilja aðra atkvæðagreiðslu um ESB.

Þjóðernissinnar fagna útgöngu úr ESB.

David Cameron hættir sem forsætisráðherra.

Bretar kjósa að yfirgefa Evrópusambandið.