Greining á kosningaþáttöku í Evrópuþingskosningunum árið 2014

By on 5, desember 2014

Tillaga sem kveður á um að aðildarríki ESB viðurkenni sjálfstætt ríki Palestínu er komin fram á Evrópuþinginu.Dagana 22. – 25. maí s.l. fóru fram kosningar til Evrópuþingsins í öllum 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Niðurstöður kosinganna ollu „pólitískum jarðskjálfta“ á meðal evrópskra stjórnmálamanna og áhugamanna um pólitík, en þær sýna svo um munar að fylgi evrópskra kjósenda er að færast frá meginstraums- og miðjusæknum stjórnmálaflokkum og yfir á jaðarflokka.

Óánægja kjósenda með ríkjandi valdaflokka hefur annars vegar verið túlkuð sem almenn óánægja kjósenda með auknar valdheimildir fjarlægra stofnana í Brussel og Frankfurt, en einnig þeim aðferðum sem beitt hefur verið við að takast á við efnahagsvanda álfunnar í kjölfar efnahags- og fjármálakreppu.

Fyrir kosningarnar var það einna helst tvennt sem olli áhyggjum evrópskra ráðamanna; annars vegar að kosningaþátttaka myndi halda áfram að dragast saman. Hins vegar voru það kannanir um alla Evrópu sem gáfu til kynna að fylgi flokka á jaðri evrópska stjórnmála, oft á tíðum yfirlýstra andstæðinga Evrópusambandsins og flokka sem reka harða innflytjendastefnu og þjóðernisstefnu myndi stóraukast og skapa efasemdir um getu þingsins til að starfa að lagasetningu sem og getu Evrópusambandsins til að takast á við viðfangsefni næstu ára.

Þegar bráðabirgðaniðurstöður kosninganna lágu fyrir leit út fyrir að kosingaþátttakan hefði aukist, í fyrsta skiptið frá því að fyrstu beinu kosningarnar fóru fram árið 1979. Fjölmargir ráðamenn í Evrópu fögnuðu þeim fréttum, en sú gleði var ekki langlíf því þegar lokaniðurstöður lágu fyrir kom í ljós að kosningaþátttakan var lægri nú í ár en nokkru sinni fyrr.

Vonrigðin voru mikil enda voru kosningarnar í ár fyrstu pan-evrópsku kosningarnar frá því að kreppan á evrusvæðinu hófst, frá því að efnahagserfiðleikar skullu á í mörgum aðildarríkjum og hið pólitíska landslag í Evrópu tók miklum breytingum. Þá hefur Evrópuþingið, með Lissabon-sáttmálanum, öðlast meira vægi í ákvarðanatöku innan Evrópusambandsins auk þess sem þingmönnum fækkaði. Loks varð sú breyting á með Lissabon-sáttmálanum að niðurstöður kosninganna til Evrópuþingsins höfðu áhrif á val á næsta forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem tilnefndur er af Leiðtogaráðinu, sem skipað er stjórnmálaleiðtogum aðildarríkjanna. Þá hafði aðildarríkjum sambandsins einnig fjölgað, en Króatía gekk í Evrópusambandið í fyrra.

Á dögunum kom út greining á kosningaþátttöku í kosningunum til Evrópuþingsins, sem byggir á viðtölum við 27.331 einstaklinga á aldrinum 18 – 24 ára (16 ára í Austurríki) frá öllum 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins, eins og tíðkast hefur síðustu ár. Hér að neðan er rýnt í nokkrar af helstu niðurstöðum greiningarinnar.

Kjörsókn

Aldrei hafa færri kosið í kosningum til Evrópuþingsins en nú.

Kjörsóknin í Evrópuþingskosningunum var 42.54%. Samhliða kosningunum til Evrópuþingsins héldu átta aðildarríki Evrópusambandsins einnig forseta-, þing- og/eða sveitarstjórnarkosningar.

Kjörsókn í kosningum til Evrópuþingsins hefur aldrei mælst hærri en þegar fyrstu beinu kosningarnar til þingsins fóru fram árið 1979 en þá mættu 61.99% Evrópubúa á kjörstað. Fimm árum síðar, eða árið 1984, mættu 58.98% kosningabærra Evrópubúa á kjörstað. Árið 1999 fór kjörsóknin svo niður fyrir 50% og hefur haldið áfram að minnka síðan.

Mikill munur var á kjörsókn í aðildarríkjunum en 76.5% munaði á mestu og minnstu kjörsókn. Kosningaþátttakan var hæst í Belgíu þar sem 89.6% mættu á kjörstað. Þar á eftir kom Lúxemborg þar sem kosningaþátttakan var 85.55% og Malta, þar sem þátttakan var 74.8%.

Í 20 af 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins var kjörsóknin undir 50% en lægst var hún í Slóvakíu þar sem einungis 13.05% mættu á kjörstað. Í Tékklandi var kosningaþátttakan 18.2% og í Póllandi 23.82%. Í sjö aðildarríkjum jókst kjörsóknin, í sex ríkjum stóð hún í stað en í 15 aðildarríkjum Evrópusambandsins minnkaði kjörsóknin.

Aldur og kyn

Rétt eins og áður voru það karlar sem frekar mættu á kjörstað en konur og þeir tóku meiri þátt í kosningabaráttunni. Þannig voru 45% þeirra sem mættu á kjörstað karlar, en 41% konur, en bilið á milli kynjanna hefur aukist.

Þegar kemur að aldri þá er ljóst að yngsti aldurshópurinn (18-24 ára) hefur jákvæðari skoðanir á Evrópusambandinu en sá elsti (55+), en þrátt fyrir það mættu einungis 28% kjósenda á aldrinum 18 – 24 ára á kjörstað, á meðan 51% þeirra sem eru 55 ára og eldri mættu á kjörstað.

Þá mættu 35% þeirra sem eru á aldrinum 25 – 39 ára á kjörstað og 45% þeirra sem eru á aldrinum 40 – 54 ára.

Þá er töluverður munur þegar kemur að stöðu kjósenda en stjórnendur (53%) og sjálfstætt starfandi (52%), auk eftirlaunsþega (50%) mættu mun frekar á kjörstað en verkamenn (37%), heimavinnandi (37%), nemendur (37%) og atvinnulausir (31%). Að sama skapi hefur sá hópur mun meira traust á stofnunum Evrópusambandsins.

Ástæður þess að mæta/mæta ekki á kjörstað

Af þeim sem mættu á kjörstað sagðist meirihluti þeirra mæta því það væri borgaraleg skylda þeirra (41%), þeir mæta alltaf (41%) eða til þess að styðja ákveðinn stjórnmálaflokk (22%). Næst á eftir hinum hefðbundnu svörum sagðist meirihlutinn mæta til þess að styðja Evrópusambandið (14%), til þess að hafa áhrif á Evrópusamstarfið (12%) og vegna þess að þeir upplifa sig sem Evrópubúa (13%). Þá sögðust 11% mæta til þess að lýsa yfir óánægju sinni.

Að sama skapi sögðust flestir þeirra sem ekki mættu á kjörstað að það væri vegna skorts á trausti og óánægja með stjórnmál almennt (23%) og vegna áhugaleysis á stjórnmálum almennt (19%). Þá sögðust 14% ekki mæta á kjörstað vegna þess að þeir töldu að atkvæði þeirra skiptir ekki máli eða að það breytti engu.

Lítil breyting er á svörum fólks milli ára, en sú breyting varð hins vegar á nú, að Evrópuþingskosningarnar höfðu áhrif á val á næsta forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og því var þeirri spurningu bætt við spurningalistann, hvort kjósendur mættu til þess að hafa áhrif á val á forseta framkvæmdastjórnarinnar. Áhugavert er að einungis 5% kjósenda völdu það sem eina af þremur ástæðum þess að þau mættu á kjörstað.

Þá vekur athygli að einungis 7% sögðust ekki kjósa vegna þess að það viti ekki mikið um Evrópusambandið eða kosningarnar til Evrópuþingsins.

Helstu málefnin

Andúð á innflytjendum er kjarninn í stefnu margra flokka sem nú sitja á Evrópuþinginu.Þau málefni sem skiptu kjósendur í Evrópuþingskosningunum hvað mestu máli voru, eins og árið 2009, atvinnuleysi og hagvöxtur, þrátt fyrir að vægi málefnanna hafi nú snúist við. Þannig sögðu 45% þeirra sem kusu að atvinnuleysi væri það sem skipti þau mestu máli í kosningunum, samanborið við 37% árið 2009.

Það voru grískir kjósendur sem höfðu hvað mestar áhyggjur af atvinnuleysi en 73% grískra kjósenda sögðu atvinnumálin vera eitt af helstu kosningamálunum, 67% Kýpverja, 66% Spánverja og 65% Ítala.

Að sama skapi sögðu 40% kjósenda að hagvöxtur væri það sem skipti þau mestu máli í kosningunum. Þar voru Grikkir aftur í forystu en 66% grískra kjósenda sögðu hagvöxt vera eitt af helstu kosningamálunum, 59% Kýpverja og 55% Portúgala.

Ljóst er því að þau aðildarríki sem hafa hvað mest fundið fyrir áhrifum efnahags- og fjármálakrísunnar hafa mestar áhyggjur af atvinnuleysi og hagvexti í landinu.

Athygli vekur að helsta breytingin frá árinu 2009 er sú að þriðja málefnið sem skipti kjósendur nú hvað mestu máli voru málefni innflytjenda, en 23% kjósenda töldu innflytjendamálin vera eitt helsta kosningamálið, en það er 7% aukning frá árinu 2009.

42% Breta sögðu málefni innflytjenda vera eitt helsta kosningamálið, samanborið við 21% árið 2009. Vægi innflytjendamála tvöfaldaðist því á meðal breskra kjósenda. 43% Maltverja töldu hið sama, 31% Svía (miðað við 11% árið 2009) og 30% Ítala og Austurríkismanna (miðað við 44% árið 2009).

Niðurstöður kosninganna staðfestu því áhyggjur evrópskra ráðamanna en kannanir fyrir kosningarnar höfðu gefið til kynna að fylgi flokka á jaðri evrópska stjórnmála, oft á tíðum yfirlýstra andstæðinga Evrópusambandsins og flokka sem eru með harða innflytjendastefnu, myndi stóraukast. Fulltrúar slíkra flokka hafa nú tekið sæti á Evrópuþinginu og hafa þeir sett svip sinn á starf þingsins nú þegar, einungis sex mánuðum eftir að þingið tók til starfa.

Leiðarvísir um Evrópuþingið 2014 – 2019.

Nánar um nýtt Evrópuþing.

Niðurstöður Evrópuþingskosninganna eftir aðildarríkjum.