Leiðari VIII. Sex óhugnanlegustu flokkanir á Evrópuþinginu!

By on 25, júní 2014
Sema Erla, ritstjóri Evrópan.

Sema Erla, ritstjóri Evrópan.

Nú þegar það eru einungis nokkrir dagar þar til að nýtt Evrópuþing kemur saman í Brussel er áhugavert að skoða hverjir það eru sem munu setjast þar að og starfa að ákvarðanatöku og lagasetningu Evrópusambandsins fram til ársins 2019.

Til viðbótar við hina hefðbundnu Sósíal demókrata, Kristilega– og Frjálslynda demókrata, Íhaldsmenn, Græningja og Sameinaða vinstrimenn, eru stjórnmálaflokkar sem enginn gat ímyndað sér að myndu setjast að á Evrópuþinginu, fyrir nokkrum árum síðan, og þingmenn sem enginn myndi vilja mæta úti á götu um miðja nótt.

Sumir félagsmenn þessara flokka bera hakakrossinn, aðrir vilja hreinsa ríkin sín af múslimum, aðrir vilja að gyðingar skrái sig hjá yfirvöldum þar sem þeir stofna þjóðaröryggi ríkisins í hættu og stofnandi eins þeirra hefur sagt að „hægt væri að leysa innflytjendavandann í Evrópu með ebóluveiru„.

Þegar breski Sjálfstæðisflokkurinn kemst ekki lengur á lista yfir verstu flokkana á Evrópuþinginu erum við komin á einhvern ótrúlegan stað. Stað þar sem hugmyndafræði nasismans, fasismans og þjóðernishyggju er allt í einu orðin að ríkjandi hugmyndafræði í samfélögum Evrópu á nýjan leik.

Hér eru sex af þeim fjölmörgu óhugnanlegu stjórnmálaflokkum sem nú taka sæti á Evrópuþinginu og munu koma að stefnumótun Evrópusambandsins næstu fimm ár.

Varúð, ekki fyrir viðkvæma.

1. Front National, Frakklandi

Hér er eitt af fjölmörgum skilaboðum Front National sem beinast að andúð á innflytjendum.

Andúð á innflytjendum er er kjarninn í stefnu Front National .

Front National var stofnaður árið 1972 þegar nokkrar þjóðernishreyfingar Frakklands sameinuðust undir einum fána. Jean-Marie Le Pen var leiðtogi flokksins allt frá stofnun hans til ársins 2011, þegar hann hætti sem formaður flokksins og dóttir hans, Marine Le Pen, tók við af honum. Front National hefur verið helsta afl þjóðernishyggju í Frakklandi allt frá árinu 1984.

Front National er oftast kenndur við þjóðernishyggju, öfga-hægri popúlisma, andúð á innflytjendum, andstöðu við Evrópusambandið og Evru, fjölmenningu og hnattvæðingu, en flokkurinn stendur meðal annars fyrir harðari innflytjendalöggjöf, en andúð á innflytjendum, sérstaklega múslimum, er kjarninn í stefnu flokksins, sem vill stöðva útbreiðslu íslams í Evrópu.

Þá hefur flokkurinn færst frá því að vera Evrópusinnaður yfir í flokk andstæðinga Evrópusambandsins, en Marine Le Pen er á móti flestu því sem Evrópusambandið stendur fyrir, og vill meðal annars að Frakkar yfirgefi evruna. Þá er hún á móti alþjóðavæðingu, alþjóðlegum samtökum eins og Sameinuðu þjóðunum og vill að Frakkar gangi úr NATO. Þá vill hún ekki að Tyrkland gangi í Evrópusambandið og hún vill frekari samstarf við Rússland. Meðan faðir hennar hefur ítrekar sýnt andúð sína á gyðingum hefur Marine Le Pen reynt að styrkja tengsl flokksins við Ísrael, sem hún segir eiga rétt á að verja sig gegn hryðjuverkum.

Þá vill Marine Le Pen leggja af tvöfaldan ríkisborgararétt í Frakklandi. Hún er á móti frjálsri verslun, hjónaböndum samkynhneigðra og fóstureyðingum. Loks vill hún þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Frakkar eigi að taka upp dauðarefsingu á ný.

Þau feðgin hafa á síðustu árum átt í deilum, þá helst vegna ummæla Jean-Marine um gyðinga, en helsti munurinn á þeim virðist vera sá að Marine Le Pen vill minna af innflytjendum meðan faðir hennar vill losna við þá fyrir fullt og allt, en Jean-Marie Le Pen hefur margoft verið kærður og sakfelldur fyrir hatursorðræðu, en það er ekki nema mánuður síðan hann sagði að „innflytjendavandamálið í Evrópu væri auðveldlega leyst á þremur mánuðum með ebóluveiru.“

Front National sigraði kosningarnar fyrir Evrópuþingið í Frakklandi, og lýstu margir því sem pólitískum jarðskjálfta en flokkurinn fékk 24 þingmenn kjörna á Evrópuþingið í kosningunum í maí, með 24.86% atkvæða, samanborið við 6.3% og þrjá þingmenn árið 2009.

2. Þjóðernis- og lýðræðisflokkur Þýskalands

"Góða ferð heim"

„Góða ferð heim“

Þjóðernis- og lýðræðisflokkur Þýskalands var stofnaður árið 1964. Flokkurinn er oftast kenndur við ný-nasisma, þjóðernishyggju, þjóðernissósíalisma, og öfga-hægri stefnu. Flokknum hefur verið lýst sem „einum mikilvægasta ný-nasistaflokknum sem hefur komið fram frá árinu 1945“.

Helsta stefnumál flokksins er að stöðva flæði innflytjenda til Þýskalands. Þá vill flokkurinn að Þjóðverjum verði skilað því landi sem þeir töpuðu í seinni heimsstyrjöldinni. Flokkurinn notaði slagorð eins og „Evrópa er að fyllast af innflytjendum“ og „Fjármagn fyrir ömmu frekar en Sinti eða Roma“ fyrir kosningarnar til Evrópuþingsins.

Evrópusambandið er að mati flokksmanna ekkert annað en Sovétríkin endurfædd.

Flokknum hefur aldrei tekist að ná sæti á þýska sambandsþinginu (Bundestag), en flokkurinn náði einum manni inn á Evrópuþingið. Sá heitir Udo Voight, en hann var leiðtogi flokksins frá árinu 1996 til 2011.

"Stígðu á gasið"

„Stígðu á gasið“

Sá hefur margoft verið kærður fyrir rasísk ummæli sín, en árið 2004 var hann dæmdur fyrir að ýta undir nasisma með ummælum sínum um að „Hitler hafi verið frábær maður“. Hann hefur efasemdir um tölu látinna í helförinni og vill að Þjóðverjum verði skilað því landi sem þeir misstu í seinni heimstyrjöldinni. Þá hefur hann margoft verið kærður og dæmdur fyrir að stuðla að ofbeldi. Árið 2011 birtist Voight á plakötum fyrir flokkinn þar sem hann var á mótorhjóli, í svörtum leðurjakka, með áletruninni „Gas geben“ (stígðu á gasið) sem augljóslega er tilvísun í gasklefana í útrýmingabúðum nasista í seinni heimstyrjöldinni.

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa ítrekað reynt að banna flokkinn, nú síðast árið 2012, en úrskurðar er enn beðið.

Nr. 3. Gullin Dögun, Grikklandi

Gullin dögun frá Grikklandi var stofnaður árið 1985. Flokkurinn er kenndur við öfga-þjóðernishyggju, ný-nasisma, fasisma, rasisma og útlendingahatur. Flokksmenn samþykkja þennan stimpil ekki þrátt fyrir að nota tákn nasismans óspart og hylla leiðtoga þýska nasismans. Þá er helsti talsmaður flokksins skreyttur hakakrossinum.

Þingmenn Gullinar dögunar.

Þingmenn Gullinar dögunar heilsa að sið nasista.

Fjölmargir flokksmenn Gullinar dögunar eru í fangelsi fyrir að tilheyra glæpasamtökum, en meðlimir flokksins hafa margoft verið ásakaðir og dæmdir fyrir ofbeldi og hatursglæpi gegn innflytjendum, samkynhneigðum og pólitískum andstæðingum, svo dæmi séu nefnd. Þá hafa þeir verið kærðir fyrir tilraunir til manndráps og nú síðast, árið 2013, var meðlimur flokksins handtekinn fyrir morð á ungum hip-hop listamanni. Í kjölfarið gerði lögreglan rassíu á flokksskrifstofuna og handtók nokkra meðlimi flokksins, þeirra á meðal leiðtoga flokksins. Seinna sama ár voru tveir meðlimir flokksins skotnir til bana fyrir utan flokksskrifstofuna, en samtökin sem lýstu sig ábyrg fyrir árásinni sögðu hana vera pólitíska aftöku á fasistum.

Í þingkosningunum í Grikklandi árið 2009 fékk Gullin dögun 0.29% atkvæða. Árið 2012 fékk flokkurinn 7% atkvæða og settist á gríska þingið í fyrsta skiptið í sögu flokksins, með 21 fulltrúa. „Svo við getum losað landið við þennan óþverra“ var á meðal þeirra slagorða sem flokkurinn notaði í kosningabaráttunni. Flestallir þingmenn flokksins standa nú frammi fyrir ákæru fyrir ofbeldisverknaði, á meðan aðrir mikilvægir forystumenn flokksins eru nú þegar í fangelsi.

Meðlimir Gullinar dögunar.

Meðlimir Gullinar dögunar.

Það kom þó ekki í veg fyrir að Gullin dögun, hlaut 9.4% Í Evrópuþingskosningunum í maí og þar af leiðandi munu þrír fulltrúar flokksins setjast á Evrópuþingið í næsta mánuði, þeirra á meðal faðir annars flokksfélagans sem var myrtur á síðasta ári.

Nr. 4. Danski þjóðarflokkurinn

Danski þjóðarflokkurinn var stofnaður árið 1995. Flokkurinn er kenndur við þjóðernishyggju, öfga-hægri popúlisma, íhaldssemi og andstæðu við Evrópusambandið.

Helsta markmið flokksins er að standa vörð um frelsi og menningararfleið danska fólksins, fjölskylduna, konungsdæmið og dönsku þjóðkirkjuna. Flokkslínan er sú að Danmörk er ekki náttúrulegt land innflytjenda. Flokkurinn er á móti fjölmenningarsamfélaginu og berst gegn því að Danmörk verði land þjóðarbrota. Það vill flokkurinn gera með því að hefta flæði innflytjenda til landsins. Þá berst flokkurinn gegn íslamsvæðingu Danmerkur.

Þín danmörk? Fjölmenningarsamfélag með nauðgunum, ofbeldi, óöryggi, kúgun kvenna og nauðungarhjónabönd. Vilt þú það?

Fjölmenningarsamfélag með nauðgunum, ofbeldi, óöryggi, kúgun kvenna og nauðungarhjónabönd. Vilt þú það?

Árið 2010 lagði flokkurinn til að innflytjendur, sem ekki eru frá Vestrænum ríkjum, væri bannað að koma til Danmerkur. Flokkurinn gerir greinarmun á innflytjendum sem eru komnir til að vera og flóttamönnum sem koma tímabundið til landsins og segist vera reiðubúinn til þess að „aðstoða þá sem þurfa á hjálp að halda, tímabundið, en flokkurinn ber siðferðislega skyldu til þess að halda Danmörku danskri.“

Stofnandi flokksins og formaður til ársins 2012, Pia Kjærsgaard, hefur meðal annars lýst því yfir að Danmörk sé ekki land þar sem innflytjendur eru velkomnir. „Ef þeir vilja breyta Stokkhólmi, Malmö eða Gautaborg í Beirút Skandinavíu með ættbálkastríðum, heiðursmorðum og hópnauðgunum er það velkomið, við getum alltaf lokað Öresund brúnni“ er meðal þess sem haft er eftir Kjærsgaard.

Flokkurinn er á móti því að Danir taki upp Evru og eru á móti því að Tyrkland gangi í Evrópusambandið. Árið 2007 lagðist flokkurinn gegn því að danska ríkisstjórnin viðurkenndi sjálfstæði Kósóvó. Flokkurinn vill setja landamæraeftirlit á að nýju innan Evrópusambandsins.

Flokkurinn hlaut 26.6% atkvæða og fjóra menn kjörna á Evrópuþingið í kosningunum í maí og tvöfaldaði fylgi sitt og þingmannafjölda. Flokkurinn er stærstur af dönsku flokkunum á Evrópuþinginu.

Nr. 5. Frelsisflokkurinn í Hollandi

Stöðvum Íslamvæðingu Hollands!

Stöðvum Íslamsvæðingu Hollands!

Frelsisflokkurinn í Hollandi var stofnaður árið 2006, af Geert Wilders, sem hefur verið leiðtogi flokksins allt frá stofnun hans. Flokkurinn er kenndur við þjóðernishyggju, öfga-hægri popúlisma, andúð á innflytjendum, andúð á Íslam og andstæðu við Evrópusambandið.

Eftir að hafa sagt sig úr Frelsis- og lýðræðisflokki Hollands þar sem hann gat ekki sætt sig við að flokkurinn væri jákvæður gagnvart mögulegir aðild Tyrklands að Evrópusambandinu, stofnaði Geert Wilders Frelsisflokkinn.

Innblásinn af morðunum á Theo van Gogh og Pim Fortuyn, ferðalögum til Ísraels, þar sem hann bjó í tvö ár, og uppeldis að hætti kaþólsku kirkjunnar, hefur Geert Wilders skipað sér í flokk helstu andstæðinga fjölmenningarsamfélagsins, innflytjenda, múslima og íslams.

Wilders og Frelsisflokkurinn vill stöðva komu allra innflytjenda frá múslimaríkjum til Hollands, og „senda heim“ þá innflytjendur sem eru þar nú þegar . Er það liður í baráttunni gegn „Íslamsvæðingu Hollands“. Wilders líkir Kóraninum við Mein Kampf og hefur barist fyrir því að bókin sé bönnuð í Hollandi. Þá berst hann gegn því að nýjar moskur verði byggðar í Hollandi. Loks vill flokkurinn að tvöfaldur ríkisborgararéttur verði bannaður þar sem slíkt veldur því að óljóst er hvar hollustan liggi.

Annað sem kemur meðal annars fram í stefnuskrá flokksins er að þörf sé á harðari refsingu gegn ofbeldisglæpum gegn gyðingum, sérstaklega ef þeir eru framdir af fólki sem aðhyllist íslam. Flokkurinn vill hömlur á vinnuafli frá nýjum aðildarríkjum ESB og múslimaríkjum og lokun allra íslamskra skóla. Úrsögn úr Evrópusambandinu og evrunni er einnig í stefnuskrá flokksins. Þá á að biðja Evrópusamandið að fjarlægja „hollensku stjörnuna“ í ESB fánanum og leggja niður Evrópuþingið. Þá skal stöðva allan fjárstuðning við vinstriflokka og stöðva allan stuðning og „áróður“ fyrir Palestínu og Palestínumenn. Þá vill flokkurinn ekki fleiri vindmyllur.

afbeelding-nieuw-roy-20097

Wilders segir að fólk annaðhvort „elski hann eða hati hann. Það sé enginn millivegur.“

Árið 2012 opnaði flokkurinn heimasíðu þar sem fólk gat sent inn kvartanir undan innflytjendum frá Mið- og Austur-Evrópu. „Misstir þú vinnuna vegna Pólverja? Rúmena? Búlgara? Við viljum vita það“ var meðal þess sem síðan stóð fyrir. Heimasíðan olli miklu fjaðrafoki of var umdeild um alla Evrópu og innan Evrópusambandsins.

Fjölmargir einstaklingar og samtök hafa höfðað mál gegn Wilders fyrir rasísk ummæli, meðan aðrir verja rétt hans til að tjá sig. Honum hefur meðal annars verið bannað að ferðast til Bretlands, sem síðar var snúið við, en móttökurnar hafa ekki alltaf verið blíðar og var honum meðal annars tilkynnt þegar hann ferðaðist til Monschau í Þýskalandi af borgarstjóranum, að hann væri ekki velkominn.

Flokkurinn hlaut 13.3% og fjóra menn kjörna á Evrópuþingið, en það var minna en Wilders átti von á og skoðanakannanir bentu til. Stuttu fyrir kosningar hélt Wilders ræðu fyrir stuðningsmenn þar sem hann spurði „vilt þú meira eða minna af Marokkóbúum hér í þessu landi?“ og fjöldinn svaraði: „Minna! Minna!“. Viðbrögðin við ummælum Wilders voru harðari en hann átti von á, einnig á meðal flokksmanna. Fylgið hrundi og lykilmenn sögðu sig úr flokknum. Þeirra á meðal Joram van Klaveren, sem áður var oddviti flokksins fyrir Evrópuþingskosningarnar.

Nr. 6. Jobbik flokkurinn í Ungverjalandi

Stuðningsmenn Jobbik brenna Evrópusambandsfánann á samkomu.

Stuðningsmenn Jobbik brenna Evrópusambandsfánann.

Ungverska Jobbik flokknum er yfirleitt lýst sem róttækum, öfga-hægri, nýnasista, þjóðernisflokki. Þá hefur flokkurinn einnig verið bendlaður við fasisma, gyðingahatur, hatur á sígaunum, samkynhneigðum og innflytjendum.

Flokkurinn, sem stofnaður var árið 2003, er af öllum þeim flokkum sem nú stefna á Evrópuþingið,  augljóslega nasistaflokkur, en flokkurinn hefur kallað eftir því að gyðingar í Ungverjalandi skrái sig á sérstaka skrá hjá yfirvöldum, þar sem þeir stofna öryggi Ungverjalands í hættu.

Grundvallartilgangur Jobbik er að standa vörð um ungverks gildi og hagsmuni Ungverjalands. Flokkurinn er á móti alþjóðavæðingu og berst gegn erlendri fjárfestingu í Ungverjalandi, sérstaklega frá gyðingum og Ísrael. Þá berst flokkurinn einnig gegn sósíalisma, samkynhneigðum, sígaunum og innflytjendum. Þá einkennist flokkurinn af sterkri andstöðu við Brussel og Evrópusambandið.

Ungverjaland tilheyrir Ungverjum“ er eitt af slagorðum flokksins.

Leiðtogi flokksins, Gábor Vona, hefur meðal annars sagt að Ungverjar hafi orðið að þrælum þegar þeir gengu í Evrópusambandið og að fjöldi Ungverja fari fækkandi á meðan sígaunum fari fjölgandi og því sé hætta á að staða þjóðarbrota í Ungverjaldi breytist, en flokkurinn mun gera allt til þess að koma í veg fyrir slíka þróun, enda tilheyri landið Ungverjum.

Flokkurinn neitar fyrir það að vera nasista- og öfga-hægriflokkur, sem og rasistar eða fasistar, og hefur oftar en einu sinni farið fyrir dómstóla með slík ummæli, en Hæstiréttur Ungverjalands komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að fjölmiðlar megi ekki kalla flokkinn „öfga-hægri flokk“ þar sem hann skilgreini sig ekki sem slíkan.

Jobbik þvertekur fyrir að vera nasistaflokkur.

Jobbik þvertekur fyrir að vera nasistaflokkur.

Flokkurinn segist vera á móti ofbeldi og fyrir lýðræði en flokkurinn hefur oftar en ekki staðið fyrir mótmælum og samkomum á götunum sem enda í átökum og skemmdarverkum. Þá á flokkurinn í vafasömu sambandi við Magya Gárda, sveit skæruliða, sem nú hefur verið bönnuð í Ungverjalandi. Sveitin, sem skreytir sem með nasistamerkjum, stendur vörð um ungverks gildi og notar ofbeldi til þess að ná fram markmiðum sínum. Liðsmenn hreyfingarinnar fá þjálfun sem minnir á hernaðarþjálfun. Núverandi formaður Jobbik er stofnandi skæruliðasveitarinnar.

Hugmyndafræði Jobbik flokksins þykir svo öfgafull, full af hatri gegn gyðingum, sígaunum, samkynhneigðum og öðrum minnihlutahópum, að flestir aðrir öfga-hægriflokkar í Evrópu forðast öll tengsl við flokkinn. Það þýðir samt sem áður ekki að Jobbik og hugmyndafæði hans eigi ekki samleið með neinum en „flokksbræður“ Jobbik má meðal ananrs finna í Slóvakíu, Póllandi, Tékklandi, Serbíu, Rúmeníu, Búlgaríu og Hvíta-Rússlandi.

Eftir síðustu þingkosningarnar í Ungverjalandi, í apríl 2014, er flokkurinn næst stærsti flokkur Ungverjalands, en hann fékk 20.5% atkvæða. Það þýðir að flokkurinn hefur fjármagn til þess að vinna að útbreiðslu hugmyndafræði sinnar um Evrópu, sem hann og gerir. Flokkurinn hlaut 14.7% atkvæða og þrjá menn kjörna á Evrópuþingið.

Aðrir sambærilegir flokkar sem ekki komust á listann en munu setjast á Evrópuþingið eru Sannir Finnar (sem nú kallast Finnski flokkurinn – þó sannir Finnar sé meira viðeigandi), Frelsisflokkurinn í Austurríki, Lega Nord frá Ítalíu, Sænskir demókratar, pólski KNP flokkurinn, Vlaams Belang frá Belgíu og fleiri og fleiri.