Uppfært: Leiðarvísir um Evrópuþingið árin 2014-2019

By on 31, maí 2014
FJöldi þingmanna í þingflokkum Evrópuþingsins 2014 - 2019.

Fjöldi þingmanna í þingflokkum Evrópuþingsins 2014 – 2019.

Niðurstöður Evrópuþingskosninganna sem fram fóru dagana 22. – 25. maí s.l. ollu pólitískum „jarðskjálfta“ meðal evrópskra stjórnmálamanna sem og áhugamanna um pólitík, en þær sýna svo um munar að fylgi evrópskra kjósenda er að færast frá meginstraums- og miðjusæknum stjórnmálaflokkum og yfir á jaðarflokka.

Óánægja kjósenda með ríkjandi valdaflokka hefur annars vegar verið túlkuð sem almenn óánægja kjósenda með auknar valdheimildir fjarlægra stofnana í Brussel og Frankfurt, en einnig þeim aðferðum sem beitt hefur verið við að takast á við efnahagsvanda álfunnar í kjölfar banka- og ríkisskuldakreppu.

Fyrir vikið voru það flokkar sem einna helst leggja áherslu á vandamál tengd innflytjendum og óöryggi kjósenda í ljósi ótryggs atvinnu- og efnahagsástands, sem komu hvað mest á óvart.

Fyrirfram var það einna helst tvennt sem olli áhyggjum evrópskra ráðamanna; annars vegar að kosningaþátttaka myndi halda áfram að dragast saman – líkt og með allar Evrópuþingskosningar frá þeim fyrstu, árið 1979, og það þó Lissabon-sáttmálinn hefði tekið gildi og aukið völd Evrópuþingsins til muna.

Hins vegar voru það kannanir um alla Evrópu sem síðustu misseri gáfu til kynna að fylgi flokka á jaðri evrópska stjórnmála – oft á tíðum yfirlýstra andstæðinga Evrópusambandsins og jafnvel ný-nasískra hreyfinga – myndi stóraukast og skapa efasemdir um getu þingsins til að starfa að lagasetningu sem og getu Evrópusambandsins til að takast á við viðfangsefni næstu ára.

Kosningaþátttakan reyndist vera ljóstýran sem leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins og stofnana þess gátu hlýjað sér við – en kosningaþátttakan stóð nokkurn veginn í stað í 43% – en það var samdráttur á miðjunni og „jarðskjálftar“ vegna öfga-flokkanna sem reyndust á rökum reistir.

Nú hafa þingflokkar Sósíal demókrata, Kristilegra demókrata og Frjálslyndra demókrata myndað meirihluta á Evrópuþinginu, en flokkarnir vilja með því einangra þá öfga-hægriflokka sem nú setjast á þing og tryggja þannig að starfsemi þingsins haldist í eðlilegu horfi.

Hægt er að nálgast umfjöllun um niðurstöður í einstökum ríkjum Evrópusambandsins hér.

Þá er hægt að kynna sér nokkrar áhugaverðar staðreyndir um nýtt Evrópuþing hér.

Einnig er hægt að kynna sér leiðarvísi sem Evropan.is birti fyrir kosningarnar, þar sem fjallað er um Evrópuþingið, störf þess og tilgang, sem og breytinguna sem Lissabon-sáttmálinn hafði í för með sér við gildistöku hans árið 2009.

Kristilegir demókratar

european_peoples_party_230513Jean-Claude Juncker, næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og aðrir leiðtogar Evrópuþingflokks Kristilegra demókrata, European People‘s Party, (EPP), voru fljótir að lýsa yfir sigri, þegar fyrir lá að þingflokkurinn yrði sá stærsti á Evrópuþinginu.

Í sætum talið er það rétt, EPP er stærsti þingflokkurinn með 221 sæti á meðan helsti keppinauturinn, Sósíal demókratar, (S&D), hafa innan sinna raða 191 Evrópuþingmann.

Þessar tölur segja hins vegar aðeins hálfa sögu. Á heildina litið sigraði EPP voðalega lítið. Þingflokkurinn hafði 274 sæti á seinasta kjörtímabili og fer þess vegna laskaður inn í nýtt tímabil 60 þingmönnum fátækari.

Bæði leiðtogar S&D og Frjálslyndra demókrata, The Alliance of Liberals and Democrats for Europe, (ALDE), voru fljótir að leggja áherslu á töpuð þingsæti EPP – ekki það að þeir hafi riðið feitum hesti frá kosningunum heldur.

Þeir gátu hins vegar bent á að EPP hefur farið með öll helstu valdaembætti Evrópusambandsins og verið við völd í flestum aðildarríkjunum seinustu ár, og því sé ábyrgðin þeirra að miðjusækin stjórnmáöfl komi jafn illa út úr þessum kosningum og raunin varð.

Stærsta tap EPP var á Ítalíu, þar sem Forza Italia, flokkur Silvio Berlusconi, missti meira en helming þingmanna sinna og hefur nú aðeins 13, en hafði 29. Á Spáni fengu Partido Popular 26% og 16 þingmenn sbr. við 42,2% og 23 þingmenn árið 2009. Í Frakklandi missti UMP, Union pour un Mouvement Populaire, flokkur Nicola Sarkozy, níu þingsæti yfir til Front National.

Það er einna helst í Póllandi, með Platforma Obywatelska, flokki forsætisráðherrans Donalds Tusks, þar sem EPP nær að halda sterkri stöðu – en jafnvel Evrópuþingmönnum þaðan fækkar. Pólverjar ætla samt, skv. nýjustu fregnum, að beita sínum áhrifum til að koma Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, í embætti utanríkismálastjóra ESB eftir að Catherine Ashton lætur af embætti.

Staða CDU, flokks Angelu Merkel í Þýskalandi, er hins vegar óskoruð innan EPP; flokkurinn hélt öllum sínum 34 Evrópuþingmönnum og eykur þannig hlutfallslegan styrk sinn eftir tap EPP víðsvegar um Evrópu.

Evrópuþingflokkur Kristilegra demókrata hefur valið sér nýjan þingflokksformann. Þjóðverjinn Manfred Weber, í flokki CSU í Bæjaralandi, systurflokki CDU, flokki Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, er nýr leiðtogi Kristilegra demókrata á Evrópuþinginu.

Þá býr þingflokkurinn yfir þingmönnum frá 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins, en Bretar eru þeir einu sem ekki eiga fulltrúa í þingflokki Kristilegra demókrata.

Sósíal demókratar

s&d logoSósíal demókratar geta varla litið á niðurstöður Evrópuþingskosninganna sem mikinn sigur heldur. Þeir hafa sjálfir reynt að beina athyglinni að stöðu Kristilegra demókrata og hægri manna almennt, sem leiðandi stjórnmálaafla innan aðildarríkjanna sl. ár, til að útskýra leiða kjósenda á hefbundnum valdaflokkum.

Evrópuþingflokkur S&D kemur veikari út en kannanir höfðu gert ráð fyrir í mars og í apríl. Þó hann haldi stöðu sinni sem næst stærsti þingflokkurinn, þá missir hann sæti og hefur nú 191 en hafði 194.

Á sumum stöðum náðu S&D flokkar varla á blað, eða bara alls ekki eins og t.d. á Írlandi.

Formenn sósíal demókrata á Írlandi, í Slóveníu og á Spáni hafa sagt af sér í kjölfar kosninganna. Fyrstur þeirra var Alfredo Perez Rubalcaba, formaður Partido Socialista Obrero, (PSOE) á Spáni, en PSOE missti 7 sæti og fékk 21 þingmann.

Á Grikklandi misstu sósíal demókratar stóran hluta af sínum þingstyrk til rótttæka vinstri flokksins SYRIZA.

Undantekningarnar voru á Ítalíu, í Portúgal og Svíþjóð, þar sem S&D flokkar sigruðu. Markverðustu niðurstöðurnar eru án efa frá Ítalíu, þar sem Lýðræðisflokkurinn – flokkur nýslegna eftirmanns Enrico Letta í embætti forsætisráðherra, Matteo Renzi – hlaut 40% atkvæða og 31 þingmann en 60% Ítala tóku þátt í kosningunum.

Um var að ræða fyrstu kosningar Renzi, sem tók við embætti eftir valdaskipti innan Lýðræðisflokksins, og getur því vel við unað. Hefur verið talað um að með þessu hafi Renzi hlotið umboð sem áður var fremur óljóst.

Ítalski Lýðræðisflokkurinn mun eftir þetta vera í leiðandi stöðu innan S&D ásamt þýskum sósíal demókrötum, sem fengu 27 Evrópuþingmenn af 99 frá Þýskalandi.

Þá munu Ítalir fara með formennsku í Ráðherraráði Evrópusambandsins næstu sex mánuði, undir stjórn Renzi, svo Ítalir eru í sterkri stöðu innan Evrópusambandsins.

Þingflokkur Sósíal demókrata kaus á dögunum þjóðverjann Martin Schulz, fyrrverandi forseta Evrópuþingsins og frambjóðanda Sósíal demókrata í stöðu forseta framkvæmdastjórnar, sem þingflokksformann sinn. Allar líkur eru þó á því að hann verði kosinn forseti Evrópuþingsins á nýjan leik og því munu Sósíal demókratarnir kjósa sér nýjan þingflokksformann á næstu dögum.

Frjálslyndir demókratar

aldeparty_short_900x900Staða Frjálsyndra demókrata hefur breyst mikið miðað við síðasta kjörtímabil á Evrópuþinginu. ALDE naut þess alltaf að vera dreifð hreyfing frjálsyndra afla víðsvegar um Evrópu, með 84 Evrópuþingmenn frá 22 aðildarríkjum ESB. Sem slíkur naut þingflokkurinn sérstöðu meðal smærri þingflokka Evrópuþingsins, þar sem hlutfallslegur styrkur mismunandi þjóðerna var nokkuð dreifður.

Að sama skapi veitti sterk staða Frjálslyndra demókrata í Þýskalandi og á Bretlandi, með 12 Evrópuþingmenn annars vegar og 11 hins vegar, aukið vægi þegar kom að samningaviðræðum innan þingsins.

Evrópuþingflokkur Frjálslyndra demókrata sækir nú liðstyrk frá fjórum þýskum þingmönnum og aðeins einum frá Bretlandi. Það er kannski einna helst í Frakklandi og Hollandi sem Frjálslyndir demókratar geta fagnað, þar sem staða þeirra styrktist í báðum ríkjum.

Þingflokkurinn samanstendur nú af 67 þingmönnum, sem er hlutfallslega stærsta tap nokkurs þingflokks á Evrópuþinginu.Miklar hræringar áttu sér stað við myndun þingflokka á nýju Evrópuþingi en þingflokkur Íhaldsmanna, European Conservatives and Reformists (ECR), er nú orðinn stærri en Frjálslyndir demókratar sem verða að sætta sig við að vera fjórði stærsti þingflokkurinn af sjö.

Frjálslyndir demókratar hafa samt sem áður myndað meirihluta á þinginu með Kristilegum demókrötum og Sósíal demókrötum, en saman vilja flokkarnir einangra þá öfga-hægriflokka sem nú setjast á þing og tryggja þannig að starfsemi þingsins haldist í eðlilegu horfi.

Guy Verhofstad, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, verður áfram þingflokksformaður Frjálslyndra demókrata, sem sækir liðsauka til 21 aðildarríkis Evrópusambandsins.

Græningjar og fylking frelsishreyfinga

GreensEFAÁ vinstri vængnum eru Alexis Tsipras og Sameinaðir vinstrimenn líklega ósáttir með minna fylgi en kannanir bentu til (sjá að neðan), en sameiginlegur Evrópuþingflokkur Græningja og Fylkingar frelsishreyfinga, The Greens/European Free Alliance, er það eflaust líka enda missti hann mikilvæg þingsæti.

Græningjar töpuðu t.d. miklu fylgi í Frakklandi og mæta með sex þingmenn þaðan í stað 15 á seinasta tímabili. Fylgið féll einnig í Þýskalandi og eru þýskir Græningjar nú 13 í stað 14.

Og það jafnvel þó Græningjar hafi boðið fram tvo frambjóðendur í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar – þýskan og franskan.

Græningjar misstu einnig fylgi í hefðbundnum vígum eins og Hollandi og Svíþjóð.

Fylking frelsishreyfinga – sem beitir sér fyrir auknum völdum sjálfstjórnarsvæða og samanstendur m.a. af Böskum, Korsíkubúum og Skotum – gekk reyndar betur. Skoski þjóðarflokkurinn og flæmskir aðskilnaðarsinnar frá Belgíu, Nieuw‐Vlaamse Alliantie (N-VA), juku báðir við sinn sætafjölda.

N-VA gekk hins vegar til liðs við íhaldsmenn í ECR.

Þingflokkurinn sem samanstóð af 58 þingmönnum á síðasta Evrópuþingi mætir nú til leiks með 50 þingmenn frá 17 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þingflokkurinn kaus á dögunum Rebeccu Harms, frá Þýskalandi, og Phillippe Lamberts, frá Belgíu, sem leiðtoga þingflokksins.

Íhaldsmenn

LOGO_ECRStaða Evrópuþingflokks íhaldsmanna, European Conservatives and Reformists (ECR), var einna viðkvæmust allra þingflokka Evrópuþingsins eftir kosningarnar, en þegar niðurstöður lágu fyrir sótti flokkurinn aðeins liðstyrk til Evrópuþingmanna frá átta aðildarríkjum ESB, en þingskaparlög gera kröfu um sjö. Í sex af þessum átta ríkjum voru einungis 1-2 Evrópuþingmenn kjörnir undir merkjum ECR.

ECR var stofnaður eftir Evrópuþingskosningarnar árið 2009, og voru helstu hvatamenn breski Íhaldsflokkurinn, pólski og tékkneski. Pólski flokkurinn sem kennir sig við lög og réttlæti, flokkur Jarosław Kaczyński fyrrum forsætisráðherra Póllands, hefur verið áberandi innan ECR og bætti við sig fjórum þingmönnum og hefur nú 19.

Breski Íhaldsflokkurinn kemur hins vegar veikari að borðinu, með 20 þingmenn í stað 25, og í Tékklandi guldu íhaldsmenn afhroð og fengu tvo þingmenn í stað níu áður.

Þessir þrír flokkar nutu sérstöðu innan ECR og gátu veitt hvorum öðrum aðhald þegar kom að málamiðlunum innanborðs – breskir og tékkneskir íhaldsmenn annars vegar og pólskir hins vegar.

Þannig náði ECR alltaf að vera frekar hefðbundin samkoma íhaldsmanna, þar sem ‚heilbrigð‘ íhaldsemi í siðferðismálum, pragmatismi og vilji til málamiðlana réði för, með áherslu á umbætur innan ESB og almennt neikvæðu viðhorfi gagnvart frekari samruna innan ESB og aukinni miðstýringu frá Brussel.

Nú koma hins vegar Tékkarnir hálf illa reittir til borðsins, og hinir bresku undir pressu frá ESB andstæðingum heimafyrir þegar kemur að innflytjendamálum (sjá að neðan í umfjöllun um Frelsis- og lýðræðisflokkinn) og með yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu um veru landsins í ESB hangandi yfir sér.

Pólskir íhaldsmenn  eru hins vegar jákvæðari gagnvart ESB. Pólskur almenningur er það einnig og stjórnmálastéttin almennt þeirrar skoðunar að vera landsins í sambandinu hafi tryggt öryggi og aukna hagsæld.

Hér er því ákveðin þversögn innan hópsins.

Eftir myndun nýs þingflokks Íhaldsmanna er ljóst að ECR færist frá vægari efasemdum um ágæti ESB og lengra inná svið harðari andstöðu, en meðal þeirra þingmanna sem gengu til liðs við Íhaldsmenn eru fulltrúar Danska Þjóðarflokksins og Finnski flokkurinn sem báðir eru umdeildir. Þá eru flæmskir aðskilnaðarsinnar einnig á meðal þeirra sem gengu til liðs við Íhaldsmenn.

Því er ljóst að þingflokkur Íhaldsmanna á Evrópuþinginu er orðinn sá þriðji stærsti, en í honum sitja nú 70 þingmenn frá 15 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þingflokksformaður Íhaldsmanna er breski þingmaðurinn Syed Kamall.

Sameinaðir vinstrimenn og norrænir græningjar

guengl-300x230Frambjóðandi Sameinaðra vinstrimanna, Confederal Group of the European United Left/Nordic Green Left (GUE/NGL), í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar, Alexis Tsipras, gat glaður við unað eftir frammistöðu SYRIZA á Grikklandi. Flokkurinn fékk 27% atkvæða og sex Evrópuþingmenn.

GUE/NGL tókst hins vegar ekki að nýta sér óánægju hjá stórum hluta evrópskra kjósenda og mætir veikari inn í nýtt tímabil en kannanir höfðu gert ráð fyrir.

Þingflokkurinn bætir þó við sig átta þingsætum, og fékk í heildina 52.

Flokkurinn er fimmti stærsti flokkurinn á Evrópuþinginu, en sem jaðarflokkur með einungis 52 Evrópuþingmenn frá 14 aðildarríkjum Evrópusambandsins er GUE/NGL ekki líklegur til mikilla afreka þinginu.

Þingflokksformaður GUE/NGL er sem fyrr Þjóðverjinn Gabriele Zimmer.

Flokkur frelsis- og beins lýðræðis

EFDD_logoBreski sjálfstæðisflokkurinn er sá stærsti innan Flokks Frelsis- og beins lýðræðis, Europe of Freedom and Direct Democracy (EFDD), og sigraði Evrópuþingskosningarnar í Bretlandi með 27% fylgi, sem skilar 24 þingmönnum.

Flokkurinn, sem á síðasta þingi hér Frelsis- og lýðræðisflokkurinn bætir við sig 15 þingmönnum og er nú með 48 þingmenn.

EFD var lengi á barmi þess að ná ekki að uppfylla skilyrði þingskaparlaga Evrópuþingsins um a.m.k. 25 þingmenn frá í það minnsta sjö aðildarríkjum.

Nigel Farage, leiðtoga breska Sjálfstæðisflokksins og EFDD tókst hins vegar ekki einungis að uppfylla þingskaparlögin heldur stækka flokkinn svo um munar, þrátt fyrir að Íhaldsmenn hafi styrkt stöðu sína á kostnað flokksins.

Farage getur þakkað ítölsku Fimmstjörnuhreyfingu (M5S) grínistans og leikarans Beppe Grillo sem gekk til liðs við flokkinn með 17 þingmenn. Þá gengu tveir þingmenn frá Sænskum demókrötum einnig til liðs við flokkinn, eini kjörni fulltrúinn frá Free Citizens flokknum í Tékklandi auk nýs þingmanns frá Lettlandi, Iveta Grigule. Joelle Bergeron, frá Frakklandi, sem náði kjöri á Evrópuþingið fyrir flokk Marine Le Pen, Front National, sagði sig úr flokknum tveimur dögum eftir kosningarnar og gekk liðs við Farage og félaga.

Flokkurinn er minnsti þingflokkurinn á Evrópuþinginu, með 48 þingmenn frá sjö aðildarríkjum, en stærð þingflokksins ætti ekki að koma í veg fyrir að Nigel Farage og félagar haldi áfram að hrista upp í þinginu.

Óháðir Evrópuþingmenn

Geert Wilders og Marien Le Pen (mynd: Reuters)

Geert Wilders og Marine Le Pen (mynd: Reuters)

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Marine Le Pen, leiðtoga öfga-hægriflokksins Front National, frá Frakklandi, og Geert Wilders, leiðtoga hollenska Frelsisflokksins, sem einnig telst til öfga-hægriflokka, til að mynda sameiginlegan þingflokk öfga-hægriflokka á Evrópuþinginu, tókst þeim það ekki. Er það einna helst vegna þess að flokkarnir saka hvorn annan um að vera of öfgafullann.

Í maí tilkynnti Le Pen að hún, með sína 24 Evrópuþingmenn, ætlaði að mynda þingflokk með hollenska Frelsisflokknum, belgíska öfga-hægriflokknum Vlaams BelangLega Nord frá Ítalíu og popúlíska öfga-hægriflokk Heinz-Christian Strache, Frelsisflokknum, frá Austurríki, en Le Pen og Wilders höfðu lýst yfir áhuga á samstarfi langt fyrir kosningarnar.

Þá höfðu nýnasistaflokkurinn Gullin dögun frá Grikklandi og ungverki öfga-hægriflokkurinn Jobbik verið orðaðir við samstarfið en Le Pen lýsti því yfir að hún vildi ekki starfa með þeim, þar sem þeir væru of öfgafullir. Að sama skapi var Wilders, sem sjálfur hefur mikla andúð á innflytjendum, ekki tilbúinn til þess að vinna með pólska öfga-flokknum KNP, sem hefur verið sakaður um gyðingahatur og kvenfyrirlitningu. Haft er eftir Wilders að hann hafi ekki verið tilbúinn til samstarfs á þinginu á kostnað hvers sem er.

Þegar fresturinn til þess að mynda þingflokka á Evrópuþinginu rann út var ljóst að ekki yrði af þingflokki öfga-hægriflokka og því munu flestir af þessum þingmönnum setjast á þingið sem óháðir. Það þýðir minna fjármagn og minni áhrif á þinginu.

Le Pen og Wilders hafa þó lýst því yfir að þau muni halda áfram að vinna að stofnun þingflokks öfga-hægriflokka, sem þau segja að verði til fyrir áramót.

Þessi hópur telur nú 52 þingmenn frá tíu aðildarríkjum Evrópusambandsins. Flestir eru þeir frá ofangreindum flokkum sem teljast til öfga-hægriflokka, nýnasistaflokka eða fasistaflokka. Hægt er að lesa nánar um þá flokka hér.

Auk þeirra má finna hinn 91 árs gamla Manolis Glesoz, sem er þekktur í heimalandinu sem og víðar fyrir baráttu sína gegn uppgangi nasista í Grikklandi í seinni heimsstyrjöldinni og er frægur fyrir að rífa niður hakakrossinn af grísku háborginni Akrópólis í Aþenu, þá 19 ára gamall.

Glezos, sem missti bróður sinn í hendur nasista, hefur verið handtekinn þrisvar, einu sinni af nasistum í Grikklandi og tvisvar af einræðisstjórninni í landinu, setið 11 ár í fangelsi og var í útlegð í fjögur og hálft ár fyrir viðnám sitt gegn ógnarstjórnum í Grikklandi, mun nú setjast á Evrópuþingið ásamt grískum nýnasistum.