Leiðarvísir um framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 2.0

By on 23, október 2014
Ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, leidd af Jean-Claude Juncker. © euintheus.org

Ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, leidd af Jean-Claude Juncker.
© euintheus.org

Jean-Claude Juncker, forseti nýrrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kynnti þann 10. september s.l. tillögu að nýrri framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem mun taka til starfa þann 1. nóvember n.k., eftir að Evrópuþingið samþykkti nýja framkvæmdastjórn í atkvæðagreiðslu sem fór fram á þinginu þann 22. október s.l. með meirihluta atkvæða, en 423 þingmenn greiddu atkvæði með nýrri framkvæmdastjórn, 209 greiddu atkvæði gegn henni og 67 þingmenn sátu hjá. Þá voru 52 þingmenn sem greiddu ekki atkvæði. 

Juncker þurfti þó að gera nokkrar breytingar á skipuriti framkvæmdastjórnarinnar til þess að fá samþykki  þingsins fyrir framkvæmdastjórn sinni, en Evrópuþingið yfirheyrði hvern og einn framkvæmdastjóra í þrjá tíma, til þess að meta hæfni þeirra, skoðanir þeirra á Evrópusambandinu og ákveða í kjölfarið hvort þeir ættu að taka sæti í nýrri framkvæmdastjórn. Segja má að yfirheyrslurnar hafi verið líflegar, erfiðar fyrir einhverja og voru sumir  kallaðir fyrir þingið oftar en einu sinni, á meðan aðrir framkvæmdastjórar slógu í gegn. 

Þannig hafnaði Evrópuþingið skipan Alenku Bratušek, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, í framkvæmdastjórnina og þurftu Slóvenar að tilnefna nýjan framkvæmdastjóra, en Bratušek gekk erfiðlega að svara spurningum Evrópuþingmannanna og þótti ósannfærandi í málflutningi sínum. Það leiddi til þess að breytingar urðu á skipuritinu og Slóvenar og Slóvakar skiptust á ábyrgðarstöðum í framkvæmdastjórninni.

Þá þurfti Juncker einnig að breyta skipan Tibor Navracsics, fyrrverandi utanríkisráðherra Ungverjalands í ríkisstjórn Victor Orbans, en Navracsics var úthlutað málaflokki sem meðal annars fer með málefni sem snúa að réttindum ríkisborgara Evrópusambandsins, en Evrópuþingið óskaði eftir því að hann fengi annan málaflokk, vegna aðgerða ungverskra stjórnvalda sem undanfarið hefur gengið langt í að stöðva starfsemi borgarahreyfinga og félagasamtaka í Ungverjalandi auk þess sem vegið hefur verið að frelsi fjölmiðla í landinu. Navracsics mun ekki lengur fara með málefni ríkisborgara Evrópusambandsins, heldur mennta- og menningamál auk íþrótta. 

Þá gerði Juncker Frans Timmermans frá Hollandi, sem er hans hægri hönd og fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, ábyrgan fyrir sjálfbærri þróun, en hann er auk þess ábyrgur fyrir betra regluverki, stofnanasamskiptum, réttarríkinu og grundvallarréttindum. Það voru Sósíalistar sem óskuðu eftir þeirri breytingu svo þeir gætu samþykkt skipan Miguel Arias Cañete frá Spáni, í stöðu framkvæmdastjóra loftlags- og orkumála, en skipan Cañete hefur verið umdeild vegna þess að hann átti hlut í olíufyrirtækjum þar til stuttu fyrir skipan hans.

Þess utan verður að segjast að Juncker hafi gert töluverðar breytingar á skipuriti nýrrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (sjá nánar að neðan). Á meðal þeirra breytinga sem Juncker gerir á skipuriti framkvæmdastjórnarinnar er að hann tilnefnir „fyrsta varaforseta“ sem mun starfa sem hans hægri hönd, en hann mun einnig vera ábyrgur fyrir betra regluverki Evrópusambandsins. Þá hafa verið búnar til stöður framkvæmdastjóra neytendamála og innflytjendamála (sitthvor staðan). Þá hefur nágrannastefna Evrópusambandsins og stækkunarstefnan verið sameinuð í eina stöðu, sem nú gengur undir nafninu Nágrannastefna Evrópusambandsins og aðildarviðræður, en ljóst er að engin stækkun á Evrópusambandinu mun eiga sér stað á næstu fimm árum, en þær aðildarviðræður sem eru í gangi munu halda áfram. Breytingar Junckers á skipuriti framkvæmdastjórnarinnar er því í samræmi við þær áherslur sem hann hefur kynnt fyrir næstu fimm árin.

Framkvæmdastjórnin, sem skipuð er einum aðila frá hverju ríki, er skipuð reynslumiklum einstaklingum. Þannig er hún skipuð 19 fyrrverandi ráðherrum, fimm fyrrverandi forsætisráðherrum aðildarríkja Evrópusambandsins, fjórum varaforsætisráðherrum og sjö framkvæmdastjórum sem munu nú sitja sitt annað tímabil. Þá eru átta fyrrverandi Evrópuþingmenn í hópnum. Ellefu af nýjum framkvæmdastjórum hafa bakgrunn í efnahagsmálum á meðan átta þeirra hafa mikla reynslu af utanríkismálum.

Af þeim 27 framkvæmdastjórum, auk Junckers, eru níu þeirra konur, en Juncker setti sér það markmið að framkvæmdastjórnin væri skipuð að minnsta kosti níu konum, og lofaði þeim aðildarríkjum sem tilnefndu konur, mikilvægum stöðum. Um tíma leit út fyrir að framkvæmdastjórnin yrði skipuð ansi fáum konum, en ljóst er nú að Juncker hafi náð að sannfæra aðildarríki Evrópusambandsins að tilnefna konur. Af sjö varaforsetum nýrrar framkvæmdastjórnar eru tvær konur, en Federica Mogherini, sem er næsti æðsti talsmaður Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum, er einnig varaforseti framkvæmdastjórnarinnar.

Hlutfall kvenkyns varaforseta í framkvæmdastjórn Junckers er því 42.85%, en í fráfarandi framkvæmdastjórn Barroso er hlutfallið 37.5%, en þar á undan, í fyrri framkvæmdastjórn Barroso, sem starfaði árin 2004 – 2009, var hlutfallið einungis 16.60%. Hlutfall kvenna í ábyrgðarstöðum eykst því.

Þá er meðalaldur nýrrar framkvæmdastjórnar 53.04 ár, en það er örlitlu minna en fráfarandi framkvæmdastjórn Barroso, en meðalaldur þeirrar framkvæmdastjórnar er 54.63 ár. Yngsti framkvæmdastjórinn er 41 árs en sá elsti er 64 ára.

Tvær af valdamestu stöðunum, sem snúa að efnahagsmálum, fóru til Breta og Frakka, en Juncker hefur skipt efnahagsmálunum niður á nokkur svið, en hópurinn samanstendur af mörgum hæfum einstaklingum á sviði fjármála- og efnahagsmála. Fyrrverandi efnahagsráðherra Frakklands, Pierre Moscovici, verður framkvæmdastjóri efnahagsmála, skatta og tolla, á meðan Bretinn Jonathan Hill verður ábyrgur fyrir fjármálaþjónustu og sviðum tengdum henni.

Aðrar valdamiklar stöður innan framkvæmdastjórnarinnar hafa farið til kvenna, eins og Juncker lofaði, en Kristalina Georgieva, sem áður var framkvæmdastjóri mannréttindamála er nú varaforseti framkvæmdastjórnarinnar og er hún ábyrg fyrir fjárhagsáætlun sambandsins og mannuði, sem er ein valdamesta staðan. Efnahagsráðherra Danmerkur, Margrethe Vestager, mun sjá um samkeppnismál. Aðrar konur í framkvæmdastjórn Junckers hafa allar fengið mikilvægar stöður.

Skipurit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 2015 – 2019 í heild sinni:

Forseti framkvæmdastjórnarinnar: Jean-Claude Juncker (Lúxemborg)

Æðsti talsmaður Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum/varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins: Federica Mogherini (Ítalía)

Fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnarinnar/ábyrgur fyrir betra regluverki, stofnanasamskiptum, réttarríkinu og grundvallarréttindum auk sjálfbærrar þróunar: Frans Timmermans (Holland)

Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar/ábyrg fyrir fjárhagsáætlun Evrópusambandsins og mannauði: Kristalina Georgieva (Búlgaría)

Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar/ábyrgur fyrir stafræna innri markaðinum: Andrus Ansip (Eistland)

Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar/ábyrgur fyrir orkumálum: Maroš Šefčovič (Slóvakía)

Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar/ábyrgur fyrir evrunni og félagslegu samtali: Valdis Dombrovskis (Lettland)

Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar/ábyrgur fyrir atvinnumálum, hagvexti, fjárfestingum og samkeppnishæfni: Jyrki Katainen (Finnland)

Framkvæmdastjóri landbúnaðar- og byggðaþróunarmála: Phil Hogan (Írland)

Framkvæmdastjóri loftlags- og orkumála: Miguel Arias Cañete (Spánn)

Framkvæmdastjóri samkeppnismála: Margrethe Vestager (Danmörk)

Framkvæmdastjóri stafrænna efnahagsmála og samfélags: Günther Oettinger (Þýskaland)

Framkvæmdastjóri efnahagsmála, skatta og tolla: Pierre Moscovici (Frakkland)

Framkvæmdastjóri mennta- og menningarmála, auk íþrótta: Tibor Navracsics (Ungverjaland)

Framkvæmdastjóri atvinnu- og félagsmála auk vinnueftirlits: Marianne Thyssen (Belgía)

Framkvæmdastjóri umhverfis- og sjávarútvegsmála auk fiskveiðimála: Karmenu Vella (Malta)

Framkvæmdastjóri nágrannastefnu Evrópusambandsins og aðildarviðræðna: Johannes Hahn (Austurríki)

Framkvæmdstjóri fjármálaþjónustu og stöðugleika auk markaðsviðskipta: Jonathan Hill (Bretland)

Framkvæmdastjóri heilsu- og matvælaöryggis: Vytenis Andriukaitis (Litháen)

Framkvæmdastjóri mannúðaraðstoðar og krísustjórnunar: Christos Stylianides (Kýpur)

Framkvæmdastjóri innri markaðarins, iðnaðar og nýsköpunar: Elżbieta Bieńkowska (Pólland)

Framkvæmdastjóri alþjóða- og þróunarsamstarfs: Neven Mimica (Króatía)

Framkvæmdastjóri réttlætis- jafnréttis- og neytendamála: Věra Jourová (Tékkland)

Framkvæmdastjóri innflytjendamála og innanríkismála: Dimitris Avramopoulos (Grikkland)

Framkvæmdastjóri byggðastefnu: Corina Crețu (Rúmenía)

Framkvæmdastjóri rannsókna, vísinda og nýsköpunar: Carlos Moedas (Portúgal)

Framkvæmdastjóri viðskipta: Cecilia Malmström (Svíþjóð)

Framkvæmdastjóri samgöngumála: Violeta Bulc (Slóvenía)

 

Með því að smella hér má finna fréttaflutning Evrópunnar um myndun nýrrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.