Fjórar flóttafjölskyldur frá Sýrlandi komu til landsins í gær

By on 7, apríl 2016
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tekur á móti flóttafólkinu. Mynd: Verlferðaráðuneytið

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tekur á móti flóttafólkinu.
Mynd: Verlferðaráðuneytið

Fjórar fjölskyldur flóttamanna frá Sýrlandi komu til Íslands í gær. Um er að ræða þrettán einstaklinga, sjö fullorðna og sex börn. Þrjár af fjölskyldunum munu setjast að í Hafnarfirði og ein í Kópavogi.

Fjölskyldurnar hafa allar verið í Líbanon um lengri eða skemmri tíma, þaðan sem þær komu með flugi í gær eftir millilendingu í París.

Fyrsti hópur flóttafólks frá Sýrlandi sem boðin hefur verin búseta hér á landi kom til landsins í janúar. Um var að ræða sex fjölskyldur, þar af 13 fullorðnir og 22 börn, sem settust að á Akureyri og í Kópavogi.

Flóttamennirnir koma hingað í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Haldin var stutt móttökuathöfn við komu fólksins þar sem félags- og húsnæðismálaráðherra ásamt fulltrúum bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og Kópavogi og fulltrúar Rauða krossins buðu þessa nýju landa velkomna með hlýjum orðum og góðum gjöfum.

Von er á öðrum hópi flóttamanna í haust.

Sjá einnig: 

Fyrsti hópur sýrlenskra flóttamanna kominn til landsins.