Leiðari XVII. Er aðskilnaður á milli ríkis og kirkju í Evrópu?

By on 23, febrúar 2015
Sema Erla, ritstjóri Evrópan.

Sema Erla, ritstjóri Evrópan.

Vantrú, félag trúleysingja á Íslandi, birti í dag nýja ályktun frá stjórn félagsins sem kveður á um að frá og með 1. mars n.k. verði allir Íslendingar skráðir í Vantrú, nema þeir skrái sig sérstaklega úr félaginu.

Samfélagsmiðlar og athugasemdakerfi hafa logað í allan dag vegna málsins en þrátt fyrir að ekki hafi allir áttað sig á því í upphafi er ljóst að um háðsádeilu á trúskráningar á Íslandi er um að ræða og sérstakt samband ríkis og kirkju á Íslandi.

Af því tilefni lagðist ég í smá athugun á sambandi ríkis og kirkju/trúarbragða innan Evrópusambandsins, en það er óhætt að segja að margt áhugavert kemur í ljós við slíka athugun.

Evrópusambandið og trúarbrögð

Trúmál innan Evrópusambandsins eru ansi fjölbreytt  en innan aðildarríkja Evrópusambandsins má finna mörg trúfélög og trúarhópa, sérstaklega eftir stækkun sambandsins árið 2004 og 2007 þegar tólf ríki gengu í sambandið. Þeirra á meðal voru Malta, Kýpur, Búlgaría, Rúmenía og Pólland.

Evrópusambandið sjálft er hinsvegar veraldleg stofnun þar sem aðskilnaður er á milli trúarlegra stofnana og stofnana innan sambandsins. Engin sérstök tengsl eru á milli stofnana Evrópusambandsins og nokkurra trúarbragða og hvergi er minnst á guð eða ákveðna trú í sáttmálum sambandsins sem það byggir starfsemi sína á.

Í annarri grein Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins, sem tók gildi árið 2009, segir að „gildin, sem liggja til grundvallar Sambandinu, eru virðing fyrir mannlegri reisn, frelsi, lýðræði, jafnrétti, réttarríkið og virðing fyrir mannréttindum, þ.m.t. réttindum þeirra sem tilheyra minnihlutahópum. Þessi gildi eru sameiginleg aðildarríkjunum í samfélagi sem einkennist af fjölhyggju, banni við mismunun, umburðarlyndi, réttlæti, samstöðu og jafnrétti karla og kvenna.“

Ljóst er að trúfrelsi á einnig við hér en í leiðarvísi Evrópusambandsins sem ráðherraráðið samþykkti árið 2013 segir meðal annars að: „rétturinn til frjálsrar hugsunar, sannfæringar, trúarbragða eða annarrar trúar (oftar nefndur rétturinn til trúfrelsis) er grundvallarréttur hvers einstaklings.“

Í Lissabon-sáttmálanum segir einnig að „sambandið virði þá stöðu sem kirkjudeildir og trúarsamtök eða trúfélög hafa í aðildarríkjunum samkvæmt landslögum og dregur hana ekki í efa. Á sama hátt virðir Sambandið þá stöðu sem heimspekileg samtök og samtök, sem eru ekki trúarlegs eðlis, hafa samkvæmt landslögum.“

Trúfrelsi í Evrópusambandinu

Allar stjórnarskrár 28 aðildarríkja Evrópusambandsins kveða á um trúfrelsi. Sumar stjórnarskrár nefna eina eða fleiri trú sérstaklega en mjög fáar nefna guð. Ákvæðin um trúfrelsi eru mismunandi eftir löndum en hægt er að skipta þeim í grundvallaratriðum í fjóra flokka: trúfrelsi sem grundvallarmannréttindi, bann við mismunun vegna trúarbragða, trú og menntun (um helmingur stjórnarskránna) og samband á milli trúar og ríkis.

Meirihluti aðildarríkja Evrópusambandsins kveða á um aðskilnað ríkis og kirkju í stjórnarskrá sinni. Í Lettlandi er td. skýrt kveðið á um að „kirkjan skuli vera aðskilin frá ríkinu.“ Hið sama má t.d. finna í stjórnarskrá Portúgals, Unverjalands, Búlgaríu og Slóveníu.

Aðrar stjórnarskrár, eins og í Þýskalandi, Eistlandi, Litháen, Tékklandi, Slóvakíu og Spáni, kveða á um að ekki sé nein ríkistrú eða ríkiskirkja, eða að ríkið tilheyri ekki neinni trú.

Sænska, danska, finnska, gríska og maltneska stjórnarskráin kveður hins vegar á um „sérstakt samband ríkis og kirkju.“ Þá er kristin trú talin vera „hin hefðbundna trú í Búlgaríu“ samkvæmt stjórnarskránni og írska stjórnarskráin kveður á um að „allt vald komi frá guði.“ Fáar stjórnarskrár ganga þó jafnlangt og sú maltneska sem gerir ráð fyrir ríkistrú þar sem rómversk kaþólska kirkjan hefur sérstöðu fram yfir önnur trúarbrögð og sú gríska sem gefur grísku rétttrúnaðarkirkjunni forréttindastöðu.

Athygli vekur að hollenska stjórnarskráin er sú eina í Evrópu sem segir ekkert um samband ríkis og trúar þar sem aðskilnaðurinn er algjör og franska stjórnarskráin er sú eina sem lýsir því yfir að franska ríkið sé veraldlegt.

Staðar trúarbragða innan Evrópusambandsins

Trú hefur lengi verið hluti af sögu Evrópu og hefur átt sinn þátt í að móta þjóðir, stjórnskipanir og lagalegar hefðir í álfunni. Því verður ekki neita að rætur trúarbragða eru djúpar og það er óhætt að segja að trúarbrögð munu halda áfram að móta evrópsk samfélög á næstu misserum.

Sú augljósa breyting sem hefur hins vegar átt sér stað er að í hinu 500 milljón manna samfélagi innan Evrópusambandsins fer trúariðkun minnkandi þrátt fyrir að finna megi hin ýmsu trúarbrögð og trúarhópa í álfunni.

Rétt eins og áður er mikill meirihluti íbúa Evrópu kristinnar trúar og þar af eru flestir kaþólikkar eða mótmælendur. Færri mæta þó í kirkju og færri viðurkenna trú á guð. Samkvæmt könnun Eurobarometer frá árinu 2010 sögðust að meðaltali 51% íbúa Evrópusambandsins trúa á guð, fjórðungur sagðist trúa á einhvern æðri mátt og einn-fimmti sagðist vera trúlaus. Á meðan 16% Tékka og 18% Svía sögðust trúa á guð sögðust 94% Maltverja, 93% Króata og 92% Rúmena trúa á guð.

Á sama tíma fer trúleysi og áhrif trúarbragða á líf almennings í Evrópu minnkandi. Í könnun Eurobarometer frá árinu 2014 voru íbúar aðildarríkja Evrópusambandsins beðnir um að nefna þrjú af mikilvægustu persónulegu gildum sínum. Af lista með 12 atriðum sögðu flestir að mannréttindi (43%), friður (41%) og virðing fyrir mannslífinu (40%) væru mikilvægustu gildin.

Einungis 5% þeirra sem svöruðu sögðu að trúin væri eitt af mikilvægustu gildunum fyrir þau en ekkert af þeim tólf  gildum sem hægt var að velja um fékk minna hlutfall en trúin. Það var helst á Grikklandi, Kýpur, Möltu og í Rúmeníu sem trúin var álitin mikilvægt gildi.

Ljóst er því að trúin er ekki álitin neitt sérstaklega mikilvægt gildi hjá almenningi í Evrópu. Að því gefnu ætti aðskilnaðurinn á milli ríkis og trúarbragða að vera kominn enn lengra á veg í flestum ríkjum Evrópusambandsins.

Það er ótrúlegt að einungis eitt af 28 ríkjum Evrópusambandsins gangi svo langt að lýsa því yfir í stjórnarskránni að það sé veraldlegt. Fleiri stjórnarskrár kveða þó á um aðskilnað ríkis og kirkju (eins og aðild að Evrópusambandinu krefst) á meðan fæstar af evrópsku stjórnarskránnum minnast á sérstök trúarbrögð eða guð.

Ísland á heima í síðasta flokknum, enda kveður íslenska stjórnarskráin á um að „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Stjórnarskráin, sem kveður að sjálfsögðu á um trúfrelsi, gefur einni trú sérstöðu og forréttindi fram yfir önnur trúarbrögð og fellur því í sama hóp og gríska og maltneska stjórnarskráin tilheyra. Ísland er því langt á eftir nágrönnum sínum og samstarfsríkjum í Evrópu og víðar þegar kemur að aðskilnaði ríkis og trúarbragða. Meira að segja Tyrkland kemst (ennþá) nær því að uppfylla lagaleg skilyrði um aðskilnað ríkis og kirkju, sem stjórnarskrá tyrkneska lýðveldisins kveður á um.

Ísland fær því algjöra falleinkunn þegar kemur að aðskilnaði ríkis og kirkju í Evrópu.