Fréttaskýring: Voru þau myrt vegna gagnrýni sinnar á rússnesk stjórnvöld?

By on 4, mars 2015
Myndir og blóm hafa verið lögð á staðinn þar sem Nemtsov var myrtur. © nbcnews

Boris Nemtsov var myrtur á göngu í miðborg Moskvu.
© nbcnews

Morðið á rússneska stjórnmálamanninum Boris Nemtsov, s.l. föstudagskvöld, hefur vakið athygli um allan heim og hafa fjölmargir þjóðarleiðtogar fordæmt morðið og kallað eftir gagnsærri, óháðri og ítarlegri rannsókn á morðinu sem virðist hafa verið framið af leigumorðingja.

Er það sérstaklega vegna þess að Nemtsov var einn helsti andstæðingur Vladimirs Pútín, forseta Rússlands, og hafði gagnrýnt hann og stjórnarhætti hans opinberlega í meira en tíu ár og m.a. sakað hann og rússnesk stjórnvöld um spillingu. Þá hafði hann einnig gagnrýnt Pútín fyrir hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu og samkvæmt samstarfsaðilum Nemtsov var hann að vinna skýrslu sem sýndi fram á veru rússneskra hermanna á átakasvæðunum í austurhluta Úkraínu, en rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað neitað fyrir slíkar ásakanir.

Stuðningsmenn Nemtsov hafa sakað rússnesk stjórnvöld og sérstaklega Pútín um að bera ábyrgð á morðinu en Pútín hefur fordæmt morðið og tekið rannsókn málsins undir sínar hendur.

Nemtsov, sem var búinn að vera áberandi í stjórnmálum í Rússlandi síðustu 30 ár bætist nú í hóp fjölmargra yfirlýstra andstæðinga rússneski ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Pútíns, sem hafa látið lífið á vafasaman og óeðlilegan hátt. Hér eru dæmi um nokkra andstæðinga rússneskra stjórnvalda sem hafa verið myrtir síðustu ár. Þrátt fyrir að listinn sé langur er hann ekki tæmandi.

Sergei Yushenkov

Árið 2003 var frjálslyndi stjórnmálamaðurinn og einn af stofnendum stjórnmálaflokksins „Frjálslynt Rússland“, Sergei Yushenkov myrtur nálægt heimili sínu í Moskvu. Hann var skotinn nokkrum sinnum í bringuna. Fjórir einstaklingar voru dæmdir fyrir morðið á Yushenkov eftir mjög vafasöm og umdeild réttarhöld. Sumir fjölmiðlar á Rússlandi héldu því fram að Boris Berezovsky, viðskiptajöfur og bandamaður Pútíns, hafi skipulagt morðið og fengið einn af þeim sem ákærðir voru fyrir morðið til þess að fremja það.

Ári áður var flokksbróðir Yushenkov og þingmaður á rússneska þinginu, Vladimir Golovlev, skotinn til bana nálægt heimili sínu í Moskvu. Yushenkov sagði á sínum tíma að morðið hefði verið framið af pólitískum ástæðum en nokkrum mánuðum áður var gerð tilraun til þess að drepa Golovlev sem hann slapp lifandi frá.

Yuri Shchekochikhin

Árið 2003 lést rússneski rannsóknarblaðamaðurinn og þingmaðurinn Yuri Shchekochikhin eftir 16 daga dularfull veikindi. Talið er að eitrað hafi verið fyrir Shchekochikhin en vitni sagði að „hann hafi kvartað undan þreytu, rauðir blettir hafi myndast á andliti hans, hann hafi misst hárið og eitt líffæri á fætur öðru hætti að virka“ samkvæmt frétt BBC frá árinu 2007. Shchekochikhin rannsakaði meðal annars spillingu í Rússlandi.

Árið 2004 lést Roman Igorevich Tsepov eftir 13 daga veikindi. Samkvæmt krufningaskýrslu lést Tsepov af völdum eitrunar af ótilgreindu geislavirku efni. Tsepov var um tíma einn af helstu trúnaðarmönnum Pútíns og var viðstaddur þegar hann tók við embætti forseta Rússlands. Allt frá árinu 1993 voru gerðar fimm misheppnaðar tilraunir til þess að drepa Tsepov sem stofnaði og rak öryggisfyrirtæki  sem gætti helstu stjórnmálamanna Rússlands, þeirra á meðal Pútíns þegar hann var varaborgarstjóri St. Pétursborgar.

Paul Klebnikov skrifaði m.a. metsölubók um rússneska auðjöfurinn Boris Berezovsky.

Paul Klebnikov skrifaði m.a. metsölubók um rússneska auðjöfurinn Boris Berezovsky.

Paul Klebnikov

Árið 2004 var ritstjóri rússnesku útgáfunnar af Forbes tímaritinu skotinn til dauða nálægt skrifstofu sinni í Moskvu. Paul Klebnikov, sem var bandarískur ríkisborgari, var þekktur fyrir gagnrýni sína á auðjöfrum Rússlands og tengsl þeirra við mafíuna og rússnesk stjórnvöld. Þrír Chechnyumenn voru ákærðir fyrir morðið en síðar sýknaðir. Ekki er enn vitað hver myrti Klebnikov en það er talist tengjast skrifum hans, en hann skrifaði m.a. metsölubókina „Guðfaðir Kremlinsins“ sem fjallaði um Boris Berezovsky.

Anna Politkovskaya

Rússneski blaðamaðurinn Anna Politkovskaya sem var þekkt fyrir harða gagnrýni á aðgerðir rússneskra stjórnvalda í Chechníu, fannst skotin til bana í lyftu í íbúðarblokk sem hún bjó í árið 2006. Í júní árið 2014 voru fimm menn handteknir vegna málsins og dæmdir fyrir morðið en ekki er enn vitað hver fyrirskipaði eða borgaði fyrir morðið sem bar öll einkenni leigumorðs. Árið 2004 veiktist Politkovskaya illa og töldu margir að reynt hefði verið að eitra fyrir henni.

Alexander Litvinenko

Í nóvember árið 2006, mánuði eftir að Anna Politkovskaya fannst látin í íbúð sinni í Moskvu, lést fyrrum njósnarinn Alexander Litvinenko, rúmum þremur vikum eftir að hann hafði drukkið te sem blandað var með efninu pólon­íum á hót­eli í London. Sagan segir að Litvinenko, sem var meðlimur í rússnesku leyniþjónustunni hafi sinn­ast við Vla­dimir Pútín seint á tí­unda ára­tugn­um þegar sá síðar­nefndi var yfirmaður leyniþjónustunnar, en starf Litvinen­ko fólst í innra eft­ir­liti með rík­is­stofn­un­um og er hann sagður hafa eign­ast marga óvini í vinnu sinni við að koma upp um spill­ingu.

Árið 1998 kom Lit­vin­en­ko upp um meint ráðabrugg um að myrða auðjöf­ur­inn Bor­is Berezov­sky. Litvinenko var hins vegar hand­tek­inn, sakaður um að hafa misnotað vald sitt og dæmdur í níu mánaða fang­elsi. Lit­vin­en­ko hélt áfram að tala gegn rússneskum stjórnvöldum og hélt því m.a. fram að sprengju­árás á rúss­neska íbúðarblokk sem fleiri en 300 manns létu lífið í hafi verið skipulögð af rússnesku leyniþjónustunni en ekki Chechnyumönnum eins og rúss­nesk yf­ir­völd hafa haldið fram.

Árið 2000 flúði Litvinenko til Bretlands vegna ofsókna og sótti um hæli. Árið 2005 var gerð tilraun til þess að drepa hann þegar reynt var að ýta vagni, fullum af bensínsprengjum, inn í íbúðina hans. Hann lést svo árið 2006, mánuði á eftir vinkonu sinni Önnu Politkovskaya, sem hann er sagður hafa verið að rannsaka morðið á, en þau voru bæði miklir gagnrýnendur rússneskra stjórnvalda og sérstaklega Pútíns.

Natalia Estemirova, Stanislav Markelov og Anastasia Baburova

russia_estemirova_2

Natalia Estemirova var myrt árið 2009. Sama ár voru tveir samstarfsfélagar hennar einnig myrtir.

Í júní árið 2009 var Nataliu Estemirova, rússneskri baráttukonu fyrir mannréttindum, vinkona og samstarfskona Önnu Politkovskaya, rænt fyrir utan heimili sitt í Chechníu af fjórum mönnum sem tveimur tímum síðar skutu hana til bana, en Estemirova hafði meðal annars rannsakað spillingu stjórnvalda í Chechníu.

Nokkrum mánuðum áður hafði Stanislav Markelov, mannréttindalögfræðingur og samstarfsmaður kvennanna skotinn til bana í miðborg Moskvu. Með honum var blaðamaðurinn Anastasia Baburova, sem einnig var myrt. Morðingjarnir fundust aldrei.

Boris Berezovsky

Í mars árið 2013 fannst rússneski auðjöfurinn Boris Berezovsky látinn á heimili sínu í London. Berezovsky, sem lengi var einn af valdamestu mönnunum í rússnesku stjórnmála- og viðskiptalífi og einn af fyrstu auðjöfrum Rússlands, var í útlegð á Bretlandi þegar hann lést. Eftir að hafa verið við hlið Pútíns þar til hann komst til valda og tengdist m.a. morðum á andstæðingum Pútíns, varð Berezovsky undir í rússnesku samfélagi eftir því sem Pútín varð valdameiri og Berezovsky varð einn helsti gagnrýnandi forsetans.

Rússnesk stjórnvöld ákærðu Berezovsky fyrir fjárdrátt og svik og reyndu ítrekað að fá hann framseldan til Rússlands frá Bretlandi án árangurs. Reynt var að taka hann af lífið a.m.k. tvisvar sinnum áður en hann fannst látinn á heimili sínum í London þann 23. mars 2013. Berezovsky fannst með snöru um hálsinn. Samkvæmt krufningarskýrslu virtist Berezovsky hafa verið hengdur, en ekki var hægt að úrskurða um hvort um sjálfsmorð hafi verið að ræða.

Á vef BBC fréttastofunnar er haft eftir Vladimir Pútín að nóg sé komið af „ skammarlegum pólitískum morðum“ í Rússlandi, eftir að Boris Nemtsov var myrtur. Sjálfur neitar hann öllum ásökunum um að hafa eitthvað með morðið á Nemtssov að gera.