Fréttaskýring: Þessir (karlar) stýra Grikklandi

By on 4, febrúar 2015
Alexis Tsipras (fyrir miðju) ásamt hluta af Tsipras ríkisstjórninni.  © REUTERS/ALKIS KONSTANTINIDIS

Alexis Tsipras (fyrir miðju) ásamt hluta af Tsipras ríkisstjórninni.
© REUTERS/ALKIS KONSTANTINIDIS

Róttæki vinstriflokkurinn Syriza sigraði þingkosningarnar sem fram fóru á Grikklandi þann 25. janúar s.l. en flokknum vantaði tvö þingsæti upp á að ná hreinum meirihluta á gríska þinginu.

Innan við sólarhring eftir að kosningarnar fóru fram tók Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza við embætti forsætisráðherra Grikklands, en strax um morguninn var flokkurinn búinn að mynda ríkisstjórn með hægri þjóðernisflokknum Sjálfstæðir Grikkir, sem fengu 13 þingsæti í kosningunum.

Tveimur dögum síðar kom ný ríkisstjórn Grikklands saman á sínum fyrsta ríkisstjórnarfundi. Ríkisstjórn Tsipras samanstendur af 41 einstaklingum, þar af eru 14 ráðherrar, sex vararáðherrar auk fjölda skuggaráðuneyta.

Athygli vekur að ríkisstjórn Tsipras er skipuð 28 meðlimum Syriza og fimm meðlimum Sjálfstæðra Grikkja en auk þess eiga græningjar einn ráðherra í ríkisstjórninni, auk þess sem sjö óháðir einstaklingar sitja í ríkisstjórninni.

Ljóst er að samsetning ríkisstjórnarinnar er afar áhugaverð enda er þar að finna hugmyndafræði þvert á pólitíska rófið, baráttumenn, hugsjónamenn, prófessora, reynslumikla stjórnmálamenn og fleiri áhugaverða einstaklinga.

Hér að neðan má sjá stutt yfirlit yfir nokkra áhugaverða ráðherra í ríkisstjórn Alexis Tsipras, en athygli vekur að af þeim 41 einstakling sem skipa ríkisstjórnina eru einungis sex konur, en af 14 ráðherrum er engin kona.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.  © ibtimes.com

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
© ibtimes.com

Forsætisráðherra: Alexis Tsipris

Hinn fertugi Alexis Tsipris er yngsti forsætisráðherra Grikklands í 150 ár. Hann er verkfræðingur að mennt og hefur verið virkur í stjórnmálahreyfingum frá unga aldri. Eftir að hafa hafa tekið þátt í stjórnmálum á sveitarstjórnarstiginu í nokkur ár varð hann leiðtogi stjórnmálaflokksins Synaspismos, sem er stærsta hreyfingin innan Syriza bandalagsins, árið 2008. Hann var þá 33 ára gamall og varð þar með yngsti maðurinn til þess að leiða stjórnmálaflokk á Grikklandi.

Ári seinna, eða árið 2009 bauð Tsipras sig fram á gríska þingið og náði kjöri. Hann varð strax leiðtogi þingflokks Syriza, bandalags vinstriflokkanna. Tsripas leiddi Syriza í gegnum þingkosningarnar árið 2012 þegar flokkurinn varð stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á gríska þinginu og stimplaði sig inn sem helsti málsvari þeirra sem mótmæltu niðurskurðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og björgunaraðgerðum þeirra fyrir gríska efnahaginn.

Tsipras var frambjóðandi Sameinaðra vinstrimanna á Evrópuþinginu í stöðu forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í kosningunum til Evrópuþingsins sem fram fóru í maí 2014 en niðurstöður þingkosninganna höfðu áhrif á val á næsta forseta framkvæmdastjórnarinnar. Þannig varð Jean-Claude Juncker forseti framkvæmdastjórnarinnar eftir að Kristilegir demókratar sigruðu kosningarnar til Evrópuþingsins.

Tsipras er í sambúð með Peristeru Batziana, en þau kynntust í skóla þegar þau voru 13 ára og gengu þá bæði í ungliðahreyfingu gríska Kommúnistaflokksins. Þau búa ásamt tveimur sonum sínum í Aþenu. Yngri sonur þeirra ber millinafnið Ernesto, í höfuðið á Ernesto Che Guevara.

Tsipras er trúleysingi og sór borgaralegan embættiseið. Athygli vakti að hann mætti ekki með bindi á athöfnina.

Varaforsætisráðherra: Giannis Dragasakis

Hinn 68 ára gamli Giannis Dragasakis er varaforsætisráðherra Grikklands. Hann er hagfræðingur og stjórnmálafræðingur að mennt og er einn af stofnendum Syriza, en uppruni hans er í gríska Kommúnistaflokknum. Hann var fyrst kjörinn á þing árið 1989.

Frá útifundi Syriza þar sem Tsipras ávarpaði stuðningsmenn flokksins.  © ITV

Frá útifundi Syriza þar sem Tsipras ávarpaði stuðningsmenn flokksins.
© ITV

Fjármálaráðherra: Yanis Varoufakis

Yanis Varoufakis er fjármálaráðherra Grikklands. Hann er með doktorsgráðu í hagfræði frá háskólanum í Essex, Bretlandi, og hefur starfað sem lektor í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu og Grikklandi.

Varoufakis er einn af óháðu ráðherrunum í ríkisstjórn Tsipras.

Varoufakis, sem segist vera „frjálslyndur marxisti“ hefur skrifað fjölmargar bækur um efnahagsmál og er mjög virtur á sínu starfssviði, víða um heim, og því kom skipan hans í stöðu fjármálaráðherra ekki á óvart.

Varoufakis, sem er 53 ára, er með grískan og ástralskan ríkisborgararétt.

Utanríkisráðherra: Nikos Kotzias

Evrópusinninn Nikos Kotzias er utanríkisráðherra Grikklands. Hann er með doktorsgráðu frá Þýskalandi í Evrópufræðum og hefur meðal annars verið lektor í Harvard og Oxford háskólunum.

Áður en hann varð utanríkisráðherra var hinn 64 ára gamli Kotzias prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Piraeus, Grikklandi.

Kotzias var fangelsaður tvisvar sinnum þegar einræðisstjórnin var við völd í Grikklandi.

Skipan evrópusinnans Kotzias í embætti utanríkisráðherra er talin senda skýr skilaboð til Brussel.

Vara-utanríkisráðherra: Nadia Valavani

Nadia Valavani er vara-utanríkisráðherra Grikklands. Valavani var áberandi í byltingunni gegn einræðisstjórninni á Grikklandi en hún var handtekin og pyntuð af grísku herstjórninni, sem gerði hana að hetju á meðal vinstrisinnaðra byltingarmanna.

Valavani, sem hefur starfað sem þýðandi síðustu misseri, er meiri efasemdamanneskja um Evrópusamstarfið en utanríkisráðherra Grikklands.

Heilbrigðisráðherra: Panagiotis Kourouplis

Panagiotis Kourouplis er heilbrigðisráðherra Grikklands. Kourouplis, sem er 63 ára, hefur verið blindur frá tíu ára aldri en hann missti sjónina þegar þýsk handsprengja frá seinni heimsstyrjöldinni sprakk í andlitið á honum.

Kourouplis er lögfræðingur að mennt og hefur verið virkur baráttumaður, jafnt sem námsmaður sem og síðar, og leiddi meðal annars baráttu blindra fyrir félagslegu réttlæti. Hann er stofnandi alþjóðasambands blindra.

Árið 2009 settist Kourouplis á gríska þingið og varð þar með fyrsti blindi þingmaðurinn á Grikklandi. Þegar hann tók svo við embætti heilbrigðisráðherra varð Kourouplis fyrsti fatlaði maðurinn til þess að gegna opinberu embætti á Grikklandi.

Umhverfisráðherra: Giannis Tsironis

Giannis Tsironis er nýr umhverfisráðherra Grikklands, en hann fer einnig fyrir loftslagsmálum. Tsironis er einn af stofnendum gríska Græningjaflokksins, sem stofnaður var árið 1983. Hann situr í ríkisstjórninni sem fulltrúi Græningja, en flokkurinn gekk til liðs við framboð Syriza í þingkosningunum og náði einum manni inn á gríska þingið.

Stuðningsmenn Sjálfstæðra Grikkja flagga gríska fánanum óspart.  © npr.org

Stuðningsmenn Sjálfstæðra Grikkja flagga gríska fánanum óspart.
© npr.org

Varnarmálaráðherra: Panos Kammenos

Panos Kammenos, leiðtogi Sjálfstæðra Grikkja, er varnarmálaráðherra Grikklands, en flokkurinn lagði mikla áherslu á varnarmál í kosningabaráttu sinni og á að þeir fengju varnarmálaráðuneytið í ríkisstjórn Tsipras.

Kammenos, sem er 49 ára gamall, er hagfræðingur að mennt og lærði meðal annars í viðskiptaháskólanum í Lyon, Frakklandi.

Kammenos var áður þingmaður fyrir Nýja demókrataflokkinn, flokk Antonis Samaras, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, en árið 2012 stofnaði hann hægri-þjóðernisflokkinn Sjálfstæðir Grikkir, sem fleiri liðsmenn Nýja demókrataflokksins gengu til liðs við.

Kammenos og flokkurinn hans eru efasemdamenn um Evrópusambandið, en Kammenos hefur meðal annars sagt að „Evrópusambandinu sé stjórnað af þýskum ný-nasistum.“ Þá vill flokkurinn að skuldir Grikkja verði afskrifaðar, sem er mögulega það eina sem Sjálfstæðir Grikkir og Syriza eru sammála um, en auk þess sem er flokkurinn með harða afstöðu í innflytjendamálum og þá sérstaklega varðandi ólöglega innflytjendur á Grikklandi.

Gríska varnarmálaráðuneytið er oftast talið vera spilltasti armur grískra stjórnmála en einn af fyrrverandi varnarmálaráðherrum Grikklands, Akis Tsochatzopoulos, var árið 2013 dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að taka við mútum, en auk hans voru nokkrir af fjölskyldumeðlimum hans einnig dæmdir í fangelsi.