Um EVRÓPAN

EVRÓPAN – Fréttamiðill um Evrópumál er fjölmiðill sem einblínir á fréttaflutning frá Evrópu og Evrópusambandinu og er eini sinnar tegundar á Íslandi.

Tilgangur EVRÓPAN er að styðja við fréttaflutning frá Evrópu, að stuðla að vönduðum og nákvæmum fréttaflutningi frá Evrópu og styrkja þar af leiðandi umræðuna um Evrópumál á Íslandi og þróun mála innan Evrópu og Evrópusambandsins. Í því samhengi er lögð mikil áhersla á staðreyndir og vönduð og sjálfstæð vinnubrögð.

Ísland er nátengt öðrum Evrópuríkjum í pólitísku, efnahagslegu og sögulegu samhengi. Ísland tekur virkan þátt í evrópsku (og alþjóðlegu) samstarfi, til dæmis á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Efnahags- og framfarastofnunarinnar og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Þá er Ísland þátttakandi í Fríverslunarsamtökum Evrópu, Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen landamærasamstarfinu.

Ísland hefur í áratugi verið virkur þátttakandi í Evrópusamstarfi og ljóst er að slíkt hefur mikil áhrif á íslenskt samfélag og íslenskan almenning. Það er því nauðsynlegt fyrir Íslendinga að hafa góðan aðgang að upplýsingum og fréttaflutningi frá Evrópu og Evrópusambandinu, sem snertir okkur öll, beint og óbeint.

Það var út frá því sem hugmyndin um EVRÓPAN – fréttamiðil um Evrópumál kviknaði.

EVRÓPAN hóf göngu sína sem vefmiðill í mars árið 2014. Á sínum fyrstu starfsmánuðum hefur EVRÓPAN vaxið hratt og notendum fjölgað ört, en EVRÓPAN hefur stimplað sig inn sem eini fréttamiðillinn á landinu sem fjallar um málefni Evrópu og Evrópusambandsins á vandaðan, nákvæman og ítarlegan hátt. Þannig bar EVRÓPAN t.d. af í fréttaflutningi af kosningunum til Evrópuþingsins sem fram fóru í maí 2014 í öllum 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins.

EVRÓPAN – fréttamiðill um Evrópumál tekur ekki þátt í dægurpólitík og tekur ekki afstöðu til mögulegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Ritstjóri EVRÓPAN er Sema Erla Serdar, stjórnmála- og Evrópufræðingur.

EVRÓPAN er fjármögnuð með auglýsingum og frjálsum framlögum.

Hægt er að styrkja starfsemina með því að leggja inn á reikning: 0526-26-520314. Kennitala: 520314-1210.